Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Höfum aldrei séð svona tölur áður“

Mynd: Sunna Valgerðardóttir / RÚV
Viðbúið er að atvinnuleysi í þeim sveitarfélögum sem reiða sig á ferðaþjónustu geti numið tugum prósenta. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og formaður sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að þau hafi aldrei séð svona tölur áður. Sveitarfélögin séu misjafnlega í stakk búin til að takast á við þennan vanda.

„Við höfum aldrei séð svona tölur áður og vonandi sjáum við það aldrei gerast aftur þeim hætti sem þetta er að gerast núna,“ sagði Aldís í kvöldfréttum RÚV.

Atvinnuleysi í mars mældist 9,2 prósent og hefur staðan gjörbreyst frá því sem var í febrúar þegar það var fimm prósent. Vinnumálastofnun hefur sagt að atvinnuleysi eigi eftir að vaxa mikið í apríl en fyrirtæki tengd flugsamgöngum og ferðaþjónustu hafa orðið verst úti.  

Aldís segir að sveitarfélögin séu misjafnlega í stakk búin til að takast á við þann vanda sem blasir við vegna kórónuveirufaraldursins. „Sum hafa verið að skila góðum hagnaði og eru ekki jafn háð ferðaþjónustu og önnur. Svo eru það þau þar sem atvinnulífið snýst allt um ferðaþjónustuna og þar erum við að sjá atvinnuleysi fara allt upp í fjörutíu prósent.“ Í nokkrum sveitarfélögum séu atvinnuleysistölur þegar komnar upp í tuttugu prósent og það sé auðvitað grafalvarlegt.

Hún telur það ekki nokkra spurningu að ríkið verði að koma til móts við þessi sveitarfélög. „Það verður að tryggja fjármuni til vinnumarkaðsúrræða og koma þeim sveitarfélögum þar sem  ekkert fjármagn er að koma inn í kassann til aðstoðar.“

Hún segir að í sínu bæjarfélagi, Hveragerði, sé atvinnuleysi komið í fimmtán prósent og það séu ekki tölur sem þau séu vön að sjá. „En við höfum fulla trú á því að það komi betra tíð, bæði hjá okkur og öllum öðrum. Við verðum bara að þreyja þorrann þangað til.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV