Gunnlaugur krefur Borgarbyggð um 60 milljónir

18.04.2020 - 07:50
Loftmynd tekin með dróna af Borgarnesi
Borgarnes. Mynd úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Gunnlaugur Júlíusson, fyrrverandi sveitarstjóri Borgarbyggðar, hefur stefnt sveitarfélaginu og krefur það um 60 milljónir króna. Stefnan var lögð fram í Héraðsdómi Vesturlands í byrjun mánaðarins. Byggðarráð Borgarbyggðar segir ljóst að ítrustu kröfur Gunnlaugs séu langt umfram þær kröfur sem sveitarfélagið telur réttmætar.

Gunnlaugi var sagt upp störfum í nóvember síðastliðnum og í stefnunni rekur hann aðdragandann að starfslokunum. 

Sagt upp á „óformlegum fundi“

Hann segist hafa verið kallaður á fund þann 12. nóvember til að hitta að máli „nokkra einstaklinga sem sæti eiga í sveitarstjórn.“  Þar hafi honum verið tilkynnt að honum stæði til boða að skrifa undir starfslokasamning. 

Þegar hann hafi hafnað því hafi honum verið tilkynnt að honum hefði verið sagt upp störfum, honum afhent uppsagnarbréf sem hann segir að hafi samstundis tekið gildi og honum gert að láta strax af störfum. Þá hafi einnig verið gerð krafa um að hann léti af hendi bíl sem hann hafði til umráða auk síma og fartölvu.

Vísað út úr ráðhúsinu tveimur tímum eftir fund

Gunnlaugur segir í stefnunni að tölvuaðgangi hans hafi verið lokað skömmu síðar án þess að honum gæfist kostur á að sækja sín persónulegu gögn. Honum hafi síðan verið gert að afhenda lykla og síðan vísað út úr ráðhúsi Borgarbyggðar tveimur tímum eftir fundinn.

Gunnlaugur segist hafa óskað eftir rökstuðningi fyrir uppsögninni sem barst eftir rúman hálfan mánuð.  Þar komu fram mismunandi sýn á stjórnun sveitarfélagsins og „ávirðingar á hendur Gunnlaugi um skort á verkstjórn og að hann hefði brotið trúnað í tengslum við stjórnsýsluúttekt á sveitarfélaginu,“ eins og það er orðað í stefnunni.

Fjártjónskrafa Gunnlaugs nemur rúmum fimmtíu milljónum, þá er gerð krafa um launaleiðréttingu, greiðslu orlofs og að sveitarfélagið greiði kostnað vegna lögmannsaðstoðar.

Segir uppsögnina hafa rýrt starfsheiður sinn

Þá fer hann fram á fjórar milljónir króna í miskabætur.  Hann segir framferði Borgarbyggðar hafi verið sérlega íþyngjandi og bakað honum andlegt tjón, rýrt starfsheiður hans og álit annarra á honum. Þetta hafi því valdið honum mikilli vanlíðan.

Uppsögnin hafi strax orðið fréttamatur fjölmiðla og verið honum mikill álitshnekkir „sérstaklega í því ljósi að uppsögnin kom til á miðju kjörtímabili, og var ekki í tilefni af meirihlutaskiptum innan sveitarstjórnar.“ Þá telur hann að þær skýringar sem sveitarstjórnin gaf út um ástæður uppsagnar hafi verið þess eðlis að telja mátti að hann hefði farið á svig við starfsskyldur eða frammistaða hans í starfi verið með óviðunandi hætti. 

Borgarbyggð hafi bakað honum andlegu tjóni með því að skirrast við að fara að lögum. Þetta hafi falið í sér „ólögmæta meingerð gegn æru og persónu hans.“  

Borgarbyggð harmar stefnuna

Stefnan var lögð fram á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í gær. Þar harmar ráðið „efni framkominnar stefnu og  ítrekar að sveitarfélagið hafi alltaf lagt áherslu á að gengið sé frá starfslokum Gunnlaugar A. Júlíussonar, fyrrv. sveitarstjóra, í samræmi við viðeigandi lög og ráðningarsamning.“  

Ljóst sé að kröfur hans séu langt umfram þær kröfur sem sveitarfélagið telji réttmætar.  „Það er því hvorki eðlilegt né heimilt að greitt verði úr sveitarsjóði á grundvelli þeirra og því verður tekið varna.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV