Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Er þetta kría? Er þetta Súpermann?“

Mynd: RÚV / RÚV

„Er þetta kría? Er þetta Súpermann?“

18.04.2020 - 11:53

Höfundar

Að sofa, veifa, sauma í og hnerra eru á meðal þeirra dansspora sem Laddi kenndi börnum þessa lands fyrir nærri fjörutíu árum. Í sóttkví og samkomubanni hafa margir fengið betri æfingu í þessum hreyfingum en nokkru sinni fyrr og því tilvalið að rifja upp Súpermanndansinn sem hefur verið dansaður í ófáum barnaafmælum í gegnum tíðina.

Í yfirstandandi heimsfaraldri hafa dagar landsmanna orðið nokkuð einsleitir enda halda sig flestir heima við sólarhringum saman og bíða þess að geta aftur farið út á meðal fólks. Dagskrá margra samanstendur að miklu leyti af því að sofa, sauma í, hnerra og klóra sér á bakinu.

Liðin eru næstum því fjörutíu ár síðan Laddi kenndi ungviði landsins dansinn sem inniheldur allar þessar hreyfingar sem landsmenn ættu að vera orðnir þaulæfðir í, í inniverunni. Í Sóttbarnalögum Hljómskálans í kvöld rifjar hann upp lagið Súpermann sem gerði allt tryllt á níunda áratugnum. Það er tilvalin dægrastytting fyrir ungviði landsins og þá sem eldri eru að æfa sig á dansinum á meðan þess er beðið að samkomubanni verði hnekkt. Það ættu allir að geta verið Súpermann saman í sumar.

Annar þáttur Sóttbarnalaga Hljómskálans er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 19.45. Góðir gestir heimsækja Hljómskálann og taka lög af ýmsum ástsælustu barnaplötum þjóðarinnar, í bland við óvænt en fjölskylduvæn eftirlætislög úr ýmsum áttum.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Vorið kemur, heimur hlýnar hjartað mitt“

Tónlist

Og Jón Gnarr prumpar svona...