Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engin tengsl milli 5G og COVID-19

18.04.2020 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd: webmd
Ekkert er til í þeim staðhæfingum að 5G-fjarskiptanet hafi áhrif á veiruna sem veldur COVID-19. Þetta kemur fram í svari Jónínu Guðjónsdóttur, lektor í geislafræði, á vef Vísindavefs Háskóla Íslands. „Nei, í stuttu máli sagt þá er ekkert til í því,“ segir í svarinu.

Fjölda falsfrétta er dreift um kórónuveiruna á samfélagsmiðlum. Ein þeirra, sem hefur náð mikilli útbreiðslu, fjallar um að tengsl séu á milli 5G og kórónaveirunnar.

„Það er ekkert dularfullt við það að COVID-19 og 5G finnist á sömu stöðum á jörðinni því hvort tveggja er algengara þar sem fólk er fleira,“ segir í svarinu á Vísindavefnum. COVID-19 hafi náð til nánast allra landa og ekkert samhengi sé á milli þess hve illa lönd verði fyrir barðinu á veirunni og þess hvort innleiðing 5G sé hafin eða hve langt hún er komin.

5G er fimmta kynslóð fjarskiptatækni þar sem notuð er rafsegulgeislun. Á Vísindavefnum segir að orsök COVID-19 sé veira sem smitist fyrst og fremst með dropa- og snertismiti á milli fólks, til dæmis þegar það hnerri eða hósti og dropar með veirunni berist á milli fólks eða á hluti í umhverfinu. Rafsegulgeislun flytji aftur á móti bara orku og geti ekki flutt efni. Því sé útilokað að nota hana til að dreifa veirum eða öðru efni. „Það er ekkert sem bendir til þess að notkun 5G-rafsegulgeislunar sé skaðleg mönnum, sé farið eftir lögum og reglum,“ segir á Vísindavefnum. Það stafi hins vegar raunveruleg hætta af veirunni sem veldur COVID-19.