Ár frá bruna Notre dame: „Veiran einokar huga fólks“

18.04.2020 - 09:00
Mynd: EPA-EFE / EPA
Það er enn ekki komið rafmagn á Notre Dame dómkirkjuna, því þarf krafta til að hringja kirkjuklukkunni , sem er sú næst stærsta í Frakklandi. Á miðvikudag þegar ár var liðið frá því dómkirkjan fræga stórskemmdist í eldsvoða, gekk hringjari, klæddur heilgalla og grímu upp í turninn. Hann togaði af afli í reipið sem bundið er við þungann kólfinn og fljótlega ómaði klukknahljómurinn um Parísarborg.

Gjörólíkir harmleikir

Klukkunni var hringt til að heiðra heilbrigðisstarfsmenn sem sinna sjúklingum með Covid-19 og samtímis klappaði fólk á bökkum Signu. 

Milljónir manna um allan heim fylgdust þann 15. apríl 2019 með fréttum af eldsvoðanum. Sáu logana rífa í sig þak kirkjunnar, turnspíruna hrynja og gulgráan reykjarmökk stíga til himins. Nú eru götur Parísar tómlegar, túristarnir sem í fyrra tóku myndir af brennandi kirkjunnu á snjallsímana sína, eru víðsfjarri. Það gildir útgöngubann. Enn sér ekki fyrir endann á faraldrinum í Frakklandi. Hann hefur kostað yfir sautján þúsund mannslíf. Athyglin beinist annað, að mannlegum harmleik sem er gjörólíkur brunanum þar sem enginn lést. 

15. apríl 2019 er þó ekki gleymdur. Sírenur vældu og slökkviliðsmenn reyndu af veikum mætti að ráða við logana. Eldurinn kviknaði síðdegis en glæðurnar kulnuðu ekki fyrr en morguninn eftir. Það tókst að bjarga steindum gluggum, styttum, þyrnikórónu og fleiru en mörg menningarverðmæti glötuðust. 

Ekki stóð á peningagjöfum

Margir voru í uppnámi og hérlendis kepptist fólk við að birta myndir af sér fyrir utan kirkjuna og segja frá minningum sínum þaðan. Þessi forna kirkja, 850 ára gömul, átti stað í hjarta fjölmargra um allan heim. 

Emmanual Macron, forseti Frakklands, hét því strax að kirkjan yrði endurbyggð fallegri en nokkru sinni og það á einungis fimm árum. Margir voru tilbúnir að leggja Frökkum lið; fólk og fyrirtæki alls staðar að lofuðu fjármagni til verksins. Nóg af fjármagni hefur skilað sér, endurbæturnar stranda ekki á því. Viðbrögðin við brunanum vöktu umræður um hvers vegna ekki verið tekið jafn hart á öðrum vandamálum, tekjuójöfnuði, loftslagsbreytingum já og nú eru læknar sem benda á að heilbrigðiskerfinu veitti ekki af álíka summum, spítalarnir brenni. 

Hugrekki og gæska ekki gleymd

epa08366731 French President Emmanuel Macron attends a video conference call with French virologist and President of the Research and Expertise Analysis Committee (Comite Analyse Recherche et Expertise, CARE) Francoise Barre-Sinoussi (unseen) on ongoing efforts to accelerate the development and access to vaccine and treatment against the coronavirus at the Elysee Palace in Paris, France, 16 April 2020.  EPA-EFE/YOAN VALAT / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Emmanuel Macron

Macron flutti á miðvikudag stutt ávarp  í tilefni af því að ár var liðið frá brunanum. Hann sagði að í dag einokaði kórónuveiran hugsanir fólks en þakkaði þeim sem fyrir ári unnu við að bjarga kirkjunni og þeim sem í dag vinna við að gera hana upp. Við höfum engu gleymt. Sagði hann. Hvorki hugrekki né gæsku. 

Gengið á ýmsu

epa08363046 A woman, wearing a protective face mask amid the coronavirus COVID-19 pandemic, walks in front of the Notre-Dame Cathedral on the eve of the first anniversary of the Notre-Dame fire in Paris, France, 14 April 2020. A year ago, on 15 April 2019, the 850-year-old Notre-Dame Cathedral of Paris suffered a devastating fire. Some 500 firefighters managed to prevent the entire cathedral from being reduced to ashes, although its celebrated spire has been destroyed. French President Emmanuel Macron promised to rebuild the cathedral within five years.  EPA-EFE/YOAN VALAT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tómlegt á götum Parísar.

Til stóð að minnast þessara tímamóta með öðrum hætti. Forsetinn hafði boðið starfsmönnum sem koma að hreinsun og viðgerðum til heiðurssamkomu í Elysée-höll, þar sem hann er með aðsetur, kór kirkjunnar átti að koma fram opinberlega og í ráðhúsinu átti að sýna söngleik um Frúarkirkjuna. Covid setti strik í reikninginn. Öllu var aflýst. 

Það hefur  gengið á ýmsu. Mörg þúsund tonn af blýi sem voru í þaki kirkjunnar og turnspíru bráðnuðu í eldinum og mengun fór langt yfir heilsuverndarmörk. Stjórnvöld voru gagnrýnd fyrir að draga lappirnar við að hreinsa götur og skólalóðir í grennd við kirkjuna, en blýmengun getur haft neikvæð áhrif á taugakerfi barna. Vegna mengunarinnar hófst uppbyggingarstarfið ekki fyrr en líða tók á síðasta sumar, verkamenn þurftu og þurfa enn að klæðast heilgöllum og grímum. Í haust urðu aftur tafir vegna vindasams veðurs og í mars voru verkamennirnir sendir heim vegna útgöngubanns. Þeir voru þá í þann mund að byrja að hreinsa vinnupalla sem bráðnuðu ofan á kirkjuna í brunanum, rör sem sveigjast í allar áttir. Býflugurnar sem hafast við í þaki skrúðhúss kirkjunnar hafa ekki látið neitt af þessu á sig fá, hvorki blý né bruna, þær hafa það gott. 

Gagnrýnendur efins um að markmið  náist

Orðrómar heyrast um að enn geti enn kirkjan hrunið en skynjarar benda til þess að byggingin sé stöðug. Rannsókn á tildrögum eldsvoðans er enn ólokið, en talið að þetta hafi verið slys eða skammhlaup. 
Enn liggur ekki fyrir hvernig kirkjan á að líta út eftir fimm ár, rifist er um það hvort og hvernig skuli endurbyggja turnspíruna og þakið, sumir arkítektar sjá fyrir sér að setja sundlaug á toppinn, aðrir vilja þar grænt svæði. Tæknileg og úrlausnarefni eru líka mörg - til dæmis hvað eigi að koma í staðinn fyrir þvertrén í kirkjuloftinu, þau voru úr trjám sem eru stærri en nokkur tré sem þekkjast í dag og það þarf að rannsaka efnin í múrsteinunum svo hægt sé að finna sambærilegar námur. Rannsóknir á rústunum hafa líka kennt vísindamönnum margt um kirkjuna og sögu hennar.  Þó kirkjan verði að einhverju leyti ný verður reynt að halda í það gamla, sumir telja þessa 850 ára gömlu dömu nú einu sinni hýsa sál Frakklands. 

Jean-Louis Georgelin, fyrrum hershöfðingi, fer fyrir nefnd sem stýrir að endurbótunum. Georgelin segir að þrátt fyrir ástandið í samfélaginu, hafi tilfinningahitinn vegna eldsvoðans ekki kulnað. Viljinn til þess að endurbyggja kirkjuna sé enn jafnmikil og þó verkið tefjist um tvo mánuði sé það ekki mikið í stóra samhenginu. Gagnrýnendur efast en Georgelin er fullviss um að það verði aftur reglulegt messuhald í kirkjunni eftir fimm ár. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi