Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Alþjóðlegar fataverslanir afpanta flíkur í stórum stíl

18.04.2020 - 21:30
Erlent · Asía · Bangladess · COVID-19
Mynd: EPA-EFE / EPA
Samdráttur í sölu á tískufatnaði vegna faraldursins hefur leitt til þess að milljónir verkafólks í Bangladess eru nú án vinnu. Alþjóðlegar verslunarkeðjur hafa hætt við pantanir og saumaverksmiðjum verið lokað.

Vinsælar fataverslanir sem margir Íslendingar kannast við eins og H&M, Primark og Marks & Spencer hafa hætt við stórar pantanir vegna ástandsins. Sem hefur þær afleiðingar að stórum verksmiðjum er lokað og verkafólk sent heim.

Hundruð komu saman til þess að mótmæla ástandinu í höfuðborg Bangladess í gær. Um fjórar milljónir starfa við vefiðnað í nærri 4.000 verksmiðjum í landinu, langmest konur frá dreifbýlum svæðum. „Við þurfum að sjá fyrir fjölskyldum okkar. Hvað eigum við að borða ef við fáum engin laun? Hér erum við og óttumst að smitast af kórónuveirunni. Samt komum við allar því við eigum engan mat,“ sagði ein mótmælenda.

Ekki fengið laun í tvo mánuði

Mörg hafa ekki fengið í laun í allt að tvo mánuði. En ástandið hefur ekki aðeins slæm áhrif á þau sem missa lífsviðurværi sitt heldur efnahaginn í heild. Vefiðnaðurinn telur nefnilega yfir 80% af öllum útflutningi landsins. Þótt reiði verkafólks beinist helst að stjórnvöldum og atvinnurekendum hafa eigendur verksmiðja gagnrýnt verslunarkeðjurnar fyrir að afpanta stórar pantanir með skömmum fyrirvara. Fréttastofa AP greinir frá því að stórar alþjóðlegar verslanir hafi alls afpantað vörur að andvirði yfir þrjá milljarða dollara, eða rúmlega 460,5 milljarða íslenskra króna.

 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV