Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aðeins tíu prósent smita hjá börnum undir 18 ára

18.04.2020 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson/RÚV
Aðeins tíu prósent þeirra sem hafa greinst með kórónuveiruna eru börn undir 18 ára aldri. Níu prósent þeirra sem eru með virkt smit miðað við tölur gærdagsins á covid.is eru í þessum aldurshópi. Um 20 prósent þeirra sem hafa verið með staðfest smit eru á aldrinum 18 til 29.

175 börn undir átján ára hafa greinst með kórónuveiruna. Af þeim eru 47 með virkt smit samkvæmt tölum sem birtust á covid.is í gær. 

Bæði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, hafa talað um að börn séu ólíklegri til að smitast. „Númer eitt, börn og unglingar smitast síður en fullorðnir. Ef þau smitast þá veikjast þau jafnframt minna,“ sagði Kári í viðtali við Fréttablaðið í lok síðasta mánaðar.

Fjölmennasti hópurinn með staðfest smit er á aldrinum 18 til 29 ára. 363 á þessum aldri hafa greinst með kórónuveiruna eða um 20 prósent af þeim 1754 smitum sem hafa verið staðfest hér á landi. 

9 hafa látist í faraldrinum. Sá yngsti er ástralskur ferðamaður sem lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands um miðjan mars. Hann var á fertugsaldri.  Ekkja mannsins greindist einnig með COVID-19 og þurfti að dveljast í einangrun í farsóttarhúsinu við Rauðarástíg. Hún fór heim til Ástralíu í lok mars.

Hinir átta voru allt Íslendingar; tveir á sjötugsaldri, þrír á áttræðisaldri og þrír á níræðisaldri. 

Sá elsti sem greinst hefur með kórónuveiruna er 103 ára og munar rúmlega hundrað árum á honum og þeim yngstu en 9 börn yngri en eins árs hafa smitast. Af þeim er sex batnað.

Á vef Landspítalans kemur fram að aðeins eru 23 starfsmenn spítalans í sóttkví.  Í lok mars voru þeir 280.  58 starfsmenn hafa greinst með kórónuveiruna og eru aðeins 9 með virkan sjúkdóm.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV