„Vona að þessi andúðarhópur sé minni en hann hljómar“

Mynd: Eydís Guðmundsdóttir / Aðsend

„Vona að þessi andúðarhópur sé minni en hann hljómar“

17.04.2020 - 12:44

Höfundar

Aðeins um þremur vikum eftir að Vegan-búðin opnaði dyrnar fyrir viðskiptavinum í nýju húsnæði í Faxafeni komu eigendur að versluninni útbíaðri í eggjaslettum. Óprúttnir aðilar höfðu í skjóli nætur sagt skoðun sína á málstaðnum með þessum sóðalega hætti. Eigendur verslunarinnar segja ljóst að þetta hafi verið táknrænn gjörningur enda eru egg ekki á matardiskum veganista af dýraverndunarsjónarmiðum.

Það tók langa tíma að þrífa verslunina og standsetja fyrir opnun. „Þetta var hræðilegt vesen," viðurkennir Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir, eigandi Vegan-búðarinnar. Húnn segist þakklát fyrir alla þá elsku og hjálpsemi sem eigendum verslunarinnar var boðin þegar fregnir af ódæðinu bárust enda segir hún mikla samstöðu meðal grænkera á Íslandi. „Vegan-samfélagið er mjög kærleiksríkt og það rigndi yfir okkur boðum um aðstoð frá fólki sem vildi hjálpa okkur að þrífa þetta. En við réðumst á þetta með háþrýstidælu að vopni. Það tók um þrjá tíma að losna við þetta.“ Vísir birti frétt um málið í gær og Sæunn Ingibjörg ræddi aðkomuna og veganisma í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær. 

Mynd með færslu
 Mynd: - - Einkasafn
Svona var aðkoman í versluninni á miðvikudag

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sæunn verður fyrir aðkasti vegna veganisma eða grænkeralífstíls. Hún hætti að borða kjöt fyrir rúmum tuttugu árum og á þeim tíma urðu margir til að gagnrýna hana og hæðast að ákvörðuninni enda þótti hún afar róttæk í þá daga. „Fyrst gerði fólk kannski grín að okkur og fannst við vera kjánar. Á þeim tíma hugsaði fólk um þessar stereótýpísku hippagrænmetisætur frá áttunda áratugnum en smám saman hefur skilningur og þekking aukist.“

Gagnrýnisraddirnar hafa þó orðið háværari og aggressívari með aukinni útbreiðslu veganisma. „En veganismi felst í því að við erum að berjast gegn óréttlæti gagnvart dýrum og gagnvart mannkyni og jörðinni. Þegar þetta er skoðað, og eins og vísindin hafa sýnt fram á, þá veldur þetta miklum skaða fyrir dýrin og umhverfið og mannfólkið. Nærtækasta dæmið er náttúrulega þessi faraldur sem gengur yfir núna,“ segir hún.

Og fleiri og fleiri ákveða að verða vegan, að sögn Sæunnar Ingibjargar, en samtímis því að vegan-hreyfingin stækkar og málstaðurinn er orðinn háværari, fjölgar andstæðingum sem verða herskárri. „Ég vona samt að þessi andúðarhópur sé minni en hann hljómar,“ segir hún.

Mótlætið mun þó ekki stoppa eigendur Veganbúðarinnar. Búðin er opin og segir Sæunn Ingibjörg að hún staðráðin í að halda áfram að stuðla að auknu aðgengi almennings að vörum sem auðvelda grænkeralífið og ábyrgan lífsstíl.

Rætt var við Sæunni Ingibjörgu Marinósdóttur í Síðdegisútvarpinu.

 

Tengdar fréttir

Evrópa

Siðferðilegur veganismi er lífsskoðun

Telur hlutfall grænmetisæta hafa tífaldast