Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja vita um fjölda smita á heimilum fatlaðs fólks

17.04.2020 - 16:40
epa08345872 A health worker tests patients at a drive through testing service enabled at Rio Hortega Hospital in Valladolid, Spain, 06 April 2020. Spain faces the 23rd consecutive day of mandatory home confinement in a bid to slow down the spread of the pandemic COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus.  EPA-EFE/NACHO GALLEGO
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent stjórnvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og fulltrúum sveitarfélaganna erindi þar sem óskað er eftir upplýsingum um fjölda COVID-smita á sambýlum, búsetukjörnum og stofnunum þar sem fatlað fólk býr. Ef stjórnvöld hafi ekki safnað umræddum upplýsingum er óskað eftir að það verði gert. 

Bent er á að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 sé mikil áhersla lögð á skyldur ríkja til að tryggja að fatlað fólk fái heilbrigðisþjónustu og vernd á því svið til jafns við aðra og „að tryggt sé að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir“. Þá sé í 33. grein samningsins kveðið á um að aðildarríkin skuldbindi sig til að safna tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum.

Þeir aðilar sem Þroskahjálp sendi erindið til eru félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, Samband íslenskra sveitarfélaga og Landlæknisembættið.

Á vef Þroskahjálpar kemur fram að ástæðan fyrir erindinu er einkum sú að í erlendum fjölmiðlum hefur komið fram að allt bendi til þess að COVID-smit séu mun útbreiddari meðal fatlaðs fólks og aldraðra sem dveljast á sambýlum, búsetukjörnum og stofnunum en á meðal fólks almennt.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV