Vigdís snýr baki við skrifstofustjóra á fundum

17.04.2020 - 19:52
Vigdís Hauksdóttir á borgarstjórnarfundi.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur ákveðið að snúa baki í skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra þegar þær sitja sömu fundi. Vigdís segir formann borgarráðs hafa boðið sér að víkja af fundum en það komi ekki til greina enda hafi hún skyldum að gegna sem kjörinn fulltrúi. Formaður borgarráðs segir það ekki eltast við duttlunga einstaka borgarfulltrúa.

Andað hefur köldu milli Vigdísar og Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjórnar.  Helga Björg hefur kvartað undan framkomu borgarfulltrúans og telur hana flokkast sem einelti og Vigdís hefur sjálf skrifað Vinnueftirlitinu bréf þar sem hún kvartar yfir Helgu Björgu.

Vigdís lagði fram harðorða bókun á fundi borgarráðs í vikunni þegar skrifstofustjórinn mætti á fund borgarráðs til að ræða drög að fyrirkomulagi borgarvaktar í velferðar-og atvinnumálum.  Helga Björg notaðist við fjarfundabúnað eins og tíðkast núna vegna kórónuveirufaraldursins.

Vigdís taldi nærveru Helgu Bjargar engu að síður vera ögrun í sinn garð. „Það er farið að bera í bakkafullan lækinn hvernig kjörnir fulltrúar meirihlutans nýta sér embættismenn í pólitískum tilgangi til að koma höggi á kjörna fulltrúa í minnihlutanum,“ segir í bókun hennar.

Vigdís segir í samtali við fréttastofu að hún hafi ákveðið að snúa baki í Helgu Björg þegar þær sitji sömu fundi og að hún ætli ekki að horfast í augu við hana. „Ég ætla ekki að valda henni meira tjóni og passa mig á því að það sé ekkert sem ég geri til þess að hún hljóti skaða af. Hún sér því bara bakið á mér.“

Vigdís undrast að ekki skuli finnast staðgengill  og segir formann borgarráðs hafa boðið henni að víkja af fundum. Það komi ekki til greina enda sé það hrein og skýr lagaskylda að kjörinn fulltrúi sinni sínum störfum vegna skyldumætingar á fundi sem boðað er til, eins og borgarfulltrúinn orðar það í grein sem birtist á visir.is í gær.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir í samtali við fréttastofu að ekki sé til neinn staðgengill fyrir umræddan skrifstofustjóra. Það geti verið 20 til 50 mál á fundi borgarráðs og fólk alls staðar úr kerfinu og utan þess komi á fund ráðsins með þau mál sem þeir eru að vinna með. „Það er ekki þannig að borgarráð eltist við duttlunga einstaka borgarfulltrúa. Þetta er persónulegt mál milli þeirra tveggja og hefur ekkert með borgarráð að gera.“

Þórdís bendir jafnframt á að þegar þessi fundur hafi verið haldin í gær hafi viðkomandi skrifstofustjóri komið fyrir fundinn ásamt teymi sínu með fjarfundabúnaði.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi