Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Upp í 40% án atvinnu á svæðum sem háð eru ferðaþjónustu

17.04.2020 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur falið Byggðastofnun að kanna sérstaklega atvinnuástand á landsvæðum þar sem ferðaþjónusta er mikilvæg. Þar hafa sveitarfélög kallað eftir sérstakri aðkomu ríkisins. Spáð er ríflega 40 prósenta atvinnuleysi í apríl þar sem útlitið er verst hjá sveitarfélögum sem treysta einkum á ferðaþjónustu.

Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið miklum skaða í ferðaþjónustunni eins og fram hefur komið og mikið atvinnuleysi og tekjutap blasir við þeim sveitarfélögum sem hve mest treysta á viðskipti við ferðamenn. Þetta kemur skýrt fram í samantekt Vinnumálastofnunar um hlutfall atvinnuleysis.

Áætlað 41,6% atvinnuleysi í Mýrdalshreppi í apríl

Þannig er til dæmis áætlað 41,6% atvinnuleysi í Mýrdalshreppi í apríl, 28% í Skaftárhreppi og 26,6% í Bláskógabyggð. Í Reykjanesbæ verður 26% atvinnuleysi í mánuðinum samkvæmt þessu og 20,6% í Suðurnesjabæ. Þá er spáð 22,1% atvinnuleysi í Sveitarfélaginu Hornafirði og 21,7% í Djúpavorgshreppi.

Kalla eftir sérstökum stuðningi stjórnvalda

Skútustaðahreppur birti nýlega áætlun um að nærri 200 stöðugildi geti tapast næstu mánuði og útsvarstekjur dragist saman um 130 milljónir króna eða 22 prósent af heildartekjum sveitarfélagsins. Þar áætlar Vinnumálastofnun tæplega 31% atvinnuleysi í apríl og Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri segir höggið gríðarlegt. „Það mikið högg að það liggur alveg fyrir að það þarf að grípa til einhverra aðgerða. Og við höfum kallað eftir því í okkar viðspyrnuaðgerðum að sveitarfélög sem eru mjög háð ferðaþjónustu fái sértæka meðferð þegar kemur að úrræðum stjórnvalda.“

Hefur falið Byggðastofnun að meta ástandið

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur nú falið Byggðastofnun að fara yfir stöðuna út um land og leggja sérstaka áherslu á að meta atvinnuástand á svæðum þar sem ferðaþjónusta er mikilvæg stoð. Þessu fagnar Þorsteinn því sveitarfélagið sé tilbúið með verkefni til að örva atvinnulífið. Meðal annars sérstök nýsköpunarverkefni í samvinnu við Þingeyjarsveit á sviði loftslagsmála, matvælaframleiðslu og byggðafestu. „Og þetta eru verkefni sem skapa störf á þessu svæði, þetta eru sjálfbærniverkefni, þannig að núna vantar okkur stuðninginn til að fara af stað með þetta. Því við erum tilbúin með fullt af verkefnum til að fara af stað með.“