Taka sýni í Vestmannaeyjum fyrir mótefnamælingu

17.04.2020 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Á næstu dögum verða 100 manns á dag boðaðir í sýnatöku í Vestmannaeyjum vegna skimunar fyrir mótefnum gegn kórónuveirunni. Sýnatakan er fyrir Íslenska erfðagreiningu. Niðurstöðu vegna mótefnamælinganna er ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku.

Sýnatökur hófust í Vestmannaeyjum í gær, þegar átján voru boðaðir í prufukeyrslu. Fréttamiðillinn Tígull greinir frá. 

Markmiðið með mótefnamælingunni er að sjá hversu margir hafi í raun smitast af veirunni, en mótefni greinast í blóði þeirra sem er batnað af sjúkdómnum.

Sýnin þurfa að berast samdægurs til ÍE

Hjörtur Kristjánsson, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að til standi að skima um helgina, en sýnatakan er háð því að Herjólfur sigli milli lands og eyja, þar sem sýnin þurfa að komast samdægurs til Íslenskrar erfðagreiningar. Byrjað verður á að skima þá sem hafa lokið einangrun og þá sem voru í sóttkví á því heimili. Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum annast sýnatökuna fyrir Íslenska erfðagreiningu. Tekin eru strok úr hálsi og nefkoki, líkt og í hefðbundinni kórónuveiruskimun, og auk þess tekin blóðprufa. Um sex hundruð manns eru útskrifaðir úr einangrun eða sóttkví í Eyjum. Þeir fá allir boð um að taka þátt í skimuninni. Enn eru 39 Eyjamenn  með sjúkdóminn og 136 í sóttkví. Þeir verða ekki boðaðir í skimun að svo stöddu. 

Búið að taka um þúsund sýni

Að sögn Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erðagreiningar, hafa um þúsund manns verið skimaðir fyrir mótefnum. Niðurstöður liggja ekki fyrir, en áður en það verður þarf mun fleiri mælingar. Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri erfðagreiningu stendur til að bjóða almenningi upp á mótefnamælingar þegar fram líða stundir en vegna umfangsins sé óvíst hvenær það verður. Það átak verði kynnt sérstaklega í fjölmiðlum. 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi