Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ójöfnuður og Covid-19: Bílskúrsútilega ekki fyrir alla

17.04.2020 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: Sigrún Ólafsdóttir/Facebook
Kórónuveiran leggst bæði á ríka og fátæka. Boris Johnson lá á gjörgæslu. Við erum öll í þessu saman, en samt ekki. Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir að faraldurinn afhjúpi ójöfnuð í samfélaginu. Í Bandaríkjunum hafa svartir farið verr út úr faraldrinum en hvítir og á Íslandi geta ekki allir brugðið sér í bílskúrsútilegu yfir nátt. 

„Valdamisræmið verður öfgakenndara“

Allir geta orðið veikir, við höfum séð fræga íþróttamenn, rithöfunda, ráðamenn og leikara veikjast eða deyja. Að því leyti getur veiran stuðlað að jöfnuði en þegar allt kemur til alls telur Sigrún að veiran eigi eftir að hafa verri áhrif á þá hópa sem standa höllum fæti efnahagslega, njóta minni virðingar í samfélaginu, eru með minni menntun eða lakara tengslanet. „Heilbrigðisváin hefur áhrif á okkur öll en líkurnar á því að við verðum fórnarlömb og það hvað kemur fyrir okkur óháð því hvort við fáum veiruna eða ekki verður ekki jafnt. Þannig að endasvarið held ég að verði alltaf að þetta muni stuðla að ójöfnuði og sennilega auka hann.“ 

Sigrún segir þetta samræmast niðurstöðum rannsókna á sviði félagsvísinda síðustu áratugi. Oft aukist valdamisræmið í samfélaginu í ástandi sem þessu, það verði öfgakenndara. Ein birtingarmynd þess sé aukið heimilisofbeldi. 

Ekki hægt að kaupa sig fram fyrir röðina

Hún segir að hér á Íslandi hafi heilbrigðiskerfið sannað sig, faraldurinn sýni kannski fram á mikilvægi þess að hafa sterkt opinbert kerfi sem allir hafa aðgang að. Alþjóðlegar kannanir sýni að hvergi sé meiri stuðningur við það en á Íslandi að ríkið sinni og veiti heilbrigðisþjónustu. Hér komist allir í Covid-próf óháð efnahag. Í Bandaríkjunum sé staðan allt önnur. Donald Trump haldi því fram í fjölmiðlum að það fái allir próf sem vilja en það sé fjarri sanni. „Þar sjáum við veruleika þar sem þeir ríkari kaupa sig fram fyrir röðina. Fársjúkt fólk fær ekki próf en við sjáum að það er búið að prófa alla NBA-körfuboltadeildina.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Sýnataka.

Hér sé Landspítalinn með ákveðið kerfi. Það séu einkenni, áhætta og tengsl við smitaða sem ráði því hvort einhver fær próf, ekki fjárhagsleg staða. Einkafyrirtækið íslensk erfðagreining sé líka með kerfi sem byggir á jöfnuði, það hver kemst að fer eftir því hvenær fólk pantaði tíma á netinu, við bætist svo slembiúrtak sem á að varpa ljósi á hversu mikið samfélagssmitið er. 

„Ameríka veikist en svartir deyja“

Hún segir stöðuna í Bandaríkjunum, ríkasta samfélagi heims, hörmulega, það skrifist á forsetann, Donald Trump, en líka það hvað grunnstoðir samfélagsins séu veikar og ójöfnuðurinn mikill, bæði þegar kemur að efnahag og kynþætti. Hlutfallslega hefur faraldurinn haft mun alvarlegri afleiðingar meðal svartra en hvítra. „Mér finnst það lýsandi sem vinur minn sem er félagsfræðingur og heitir Rashawn Ray sagði. Að við höfum hingað til verið í þeim aðstæðum að þegar Ameríka fær kvef þá fá svartir flensuna en núna, árið 2020, þá fær Ameríka Covid-19 en svart fólk deyr. Við erum að sjá rosalegar tölur í ríki eins og Michigan til dæmis, þar eru 15% íbúa svartir en þeir eru 35% af þeim sem hafa greinst. Þetta á ekki bara við um eitt fylki heldur á þetta meira eða minna við um öll fylkin,“ segir Sigrún. 

epaselect epa08362590 Paramedics bring a patient into the emergency room at Elmhurst Hospital Center in Queens, New York, USA, on 14 April 2020. The number of confirmed COVID-19 patients continues to rise in the United States as countries around the world try to deal with the coronavirus outbreak.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
Bráðaliðar flytja COVID-19 sjúkling á bráðamóttöku Mynd: EPA-EFE - EPA
Sjúkraflutningamenn flytja sjúkling á spítala í Brooklyn, New york.

Goðsögnin um stéttlaust Ísland lifi góðu lífi

Þegar kemur að ójöfnuði eru það að sögn Sigrúnar kyn, kynþáttur og stétt sem hafa mest áhrif. Með stétt er átt við tekjur fólks og menntun. Sigrún segir að goðsögnin um að allir séu jafnir á Íslandi lifi góðu lífi. Að við séum stéttlaust samfélag. Hún segir að menningarlega sé kannski ekki mikill munur milli hópa hér, allir heilsist með fornafni og ráðamenn séu jafnvel í símaskránni en efnahagslega hafi í gegnum aldirnar ríkt ójöfnuður á Íslandi, einhverjir haft það mjög gott á meðan aðrir skrimtu. Þetta eigi ekki síður við á tímum kórónuveirufaraldurs. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Á veitingastað í miðbænum. Menningarlega kann stéttamunur á Íslandi að vera lítill en alltaf hafa verið ríkir og fátækir á Íslandi.

Kvöldvökur og kósí

Sigrún segir fallegt að horfa á íslenskt samfélag þessa dagana, fólk hafi það huggulegt. „Við erum að horfa á Helga Björns á laugardagskvöldum og við erum að panta okkur mat frá veitingastöðum sem yfir nóttu eru búnir að taka upp heimsendingu en spurningin verður alltaf, hverjir eru í aðstöðu til að geta gert nákvæmlega þetta? Við erum ekkert öll í vinnu þar sem við getum unnið heima, við erum ekki öll í vinnu sem endilega er örugg, við erum með suma sem hafa verulegar áhyggjur af því að missa vinnuna, við erum með fólk sem er búið að missa vinnuna eða er komið í lægra starfshlutfall á meðan aðrir hafa engar áhyggjur af því að missa sitt lífsviðurværi. Kreppan sem við búumst við mun auðvitað hafa áhrif á alla en hún mun hafa meiri áhrif á suma heldur en aðra.“

Sigrún nefnir til dæmis innflytjendur, þeir hafi sumir lítið tengslanet hér á landi, hafi áhyggjur af ættingjum úti og séu oft fyrstir til að missa vinnuna þegar þrengir að. 

Bílskúrsútilegur og ilmolíubað

Sigrún segist hafa haft gaman af nýja Covid-samstöðuslagaranum Ferðumst innanhúss, en hún hjó eftir þessu með bílskúrsútileguna, sjálf hafði hún ekki tök á því að bregða sér í slíka útilegu yfir páskana enda ekki með bílskúr.
Í laginu Ferðumst innanhúss er líka talað um að leiðigjarna stofu og grátt eldhús. Hjá mörgum er þetta eitt og sama rýmið. Svo geta ekki allir brugðið sér í ilmolíubað, verða að láta sturtuna duga. „Það er rosalegur munur á því að vera fjögurra manna fjölskylda í lítilli blokkaríbúð eða í stóru einbýlishúsi,“ segir Sigrún. Þá segir hún að það komi mörgum fjölskyldum illa að missa skólamáltíðir eða hluta þeirra. Fyrir sum börn séu skólamáltíðirnar mikilvægasta máltíð dagsins. 

Svalir ómetanlegar á tímum útgöngubanns

Í mörgum Evrópurikjum ríkir útgöngubann, við slíkar aðstæður skiptir gott húsnæði enn meira máli og svalir verða líklega ómetanlegar, þeir svalalausu missa bæði af því að geta viðrað sig reglulega yfir daginn og því að taka þátt í ýmsum samfélagslegum svala-aðgerðum, söng og klappi fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Þröngur húsakostur getur líka bitnað á börnum, þegar þarf að hanga inni er mikill auður fólginn í því að geta farið í boltaleik á ganginum eða flakkað milli rýma. 

epa08367249 Fiddler Jakub Lysik (R) and cellist Paulina Grondys (L), musicians of the Silesian Philharmonic in Katowice during a concert on their balcony in Bedzin, Poland, 16 April 2020. Musicians play for their neighbors during the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/ANDRZEJ GRYGIEL POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Spila á svölum fjölbýlishúss í Katowice, Póllandi.

Menningarleg stéttaskipting

Sigrún segir líka misjafnt hversu mikið foreldrar geti veitt börnum sínum, hversu mikið þeir geta verið heima með þeim að gera eitthvað uppbyggilegt, hvort þeir geti skipulagt stundatöflu fyrir þau eða hafi næga þekkingu til að aðstoða börnin við námið. Þetta sé dæmi um menningarlegan stéttamun. 

Áhyggjur af vissum barnahópum

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í gær að skert starfsemi skóla hefði þegar skaðað sum börn og ungmenni. Hann horfir þar sérstaklega til ungmenna sem eru af erlendum uppruna eða glíma við geðraskanir. „Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim nemendum sem standa höllum fæti, það sem mun gerast núna ef við tökum það ekki alvarlega og mætum því ekki er að ójöfnuður mun aukast. Aðstöðumunur barna er gríðarlega mikill ekki bara á milli skóla heldur líka eftir aðstæðum heima. Ef foreldri og jafnvel tvö, þrjú börn eru að reyna að vinna saman í fjarnámi, öll anð nota sömu tölvuna, það er ekki sami veruleiki og þar sem hver hefur sitt tæki og foreldrar jafnvel í góðri aðstöðu til að hjálpa börnunum sínum.“

„Hvað ætlum við að gera?“

Það eru ótrúlegir tímar, öllu hefur nánast verið kollvarpað á nokkrum vikum. Sigrún segir að hefði einhver lýst þessum veruleika fyrir henni fyrir ári, hefði hún hlegið vantrúuð. Hún segir í ljósi þessa erfitt að ímynda sér hver þróunin verður næstu mánuði en telur líklegt að faraldurinn móti okkur sem einstaklinga og samfélög í langan tíma. Sá ójöfnuður sem Covid hefur afhjúpað innan og milli samfélaga komi félagsfræðingum ekki á óvart. „En þetta er að sýna öllum almenningi hvaða áhrif ójöfnuður hefur og stóra spurningin hlýtur þá að vera hvernig ætlum við sem einstaklingar og samfélög að vinna úr því.“

Hún segist hafa heyrt marga tala um faraldurinn sem ákveðna núllstillingu, fólk átti sig betur á því hvað raunverulega skipti máli í samfélaginu og segist tengdara sínum grunngildum. Hún telur að hugsanlega verði faraldurinn til þess að meiri áhersla verði lögð á jöfnuð og það að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins. Bandaríkin horfi kannski meira í þá átt því hingað til virðist ríki með sterkt velferðarkerfi vera að koma betur út úr faraldrinum. Þá virðist ríkjum með kvenkyns forsætisráðherra hafa vegnað betur en öðrum. Hún segir þó líka vel mögulegt að þetta skrítna tímabili gangi yfir og allt fari í sama horf og áður. Engar stórkostlegar breytingar á pólitíska sviðinu eða hegðun almennings.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV