Lungnakrabbamein alfarið umhverfissjúkdómur á Íslandi

17.04.2020 - 11:33
Mynd: RÚV / RÚV
Nær allir sem fá lungnakrabbamein á Íslandi hafa reykt um langan tíma og þessi tegund krabbameins er því að mestu leyti tengd umhverfisþáttum. Aftur á móti erfist tilhneigingin til þess að reykja. Kári Stefánsson ræddi þetta og fleira í þættinum Þú veist betur á Rás 2.

Kári fór yfir sögu erfðarannsókna í þættinum, hvað má læra af þeim og hvað framtíðin gæti borið í skauti sér. Hann ræddi meðal annars samspil erfða og umhverfis en hvort tveggja hefur áhrif á sjúkdóma í manninum. Kári tók lungnakrabbamein sem dæmi og sagði að það væri er nær algjörlega umhverfissjúkdómur á Íslandi. „Það fær raunverulega enginn lungnakrabbamein á Íslandi nema hann hafi reykt um langan tíma. 97,5% þeirra sem fá lungnakrabbamein á Íslandi hafa reykt,“ segir Kári. Þessar tölur sýni að án áhrifa umhverfisins væri lungnakrabbamein nær óþekkt á Íslandi. 

Kári segir að Íslensk erfðagreining hafi aftur á móti sýnt með rannsóknum sínum að tilhneigingin til þess að reykja erfist. „Við höfum fundið breytanleika í erfðamenginu sem gerir það að verkum að ef þú hefur þá, þá eru líkurnar á að þú reykir miklu meiri heldur en ef þú hefur þá ekki. Ef þú hefur þessa breytanleika og ert að reyna að hætta að reykja er það erfiðara fyrir þig. Ef þú hefur þessa breytanleika og þú reykir þá reykir þú meira. Þú erfir sem sagt tilhneiginguna til að leita í umhverfið sem veldur sjúkdómnum. Hvar eru mörkin milli erfða og umhverfis? Þau eru ekki til.“  

Viðmælendur Atla Más Steinarssonar Í þáttunum Þú veist betur eru allir sérfræðingar á sínu sviði og útskýra alls kyns áhugaverða hluti fyrir hlustendum. Þættirnir eru á dagskrá alla miðvikudaga á Rás 2 og eru einnig aðgengilegir í hlaðvarpi og í spilara RÚV.

atlimar's picture
Atli Már Steinarsson
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi