Hundruð þúsunda í hættu í Afríku

17.04.2020 - 17:54
epa08337609 A Nigerian policeman checks movement of motorists during lockdown in Abuja, Nigeria 01 April 2020. Nigerian President Muhammad Buhari announced the total lock down of Abuja, Lagos and Ogun state. Fears are high that should the coronavirus SARS-CoV-2 which causes the Covid-19 disease gain traction in Africa it could have a devastating impact on some of the poorest and most vulnerable people on the planet.  EPA-EFE/GEORGE ESIRI
Ströng öryggisgæsla er í stærstu borgum Nígeríu vegna útgöngubanns. Mynd: EPA-EFE - EPA
Hætta er á að COVID-19 farsóttin eigi eftir að verða allt að þrjú hundruð þúsund manns að bana í Afríku, að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Kórónuveiran er farin að breiðast þar út, einkum í borgum.

Samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hefur kórónuveiran breiðst hratt út í álfunni síðustu daga. Þar eru þó einungis innan við nítján þúsund staðfest tilfelli og hátt í eitt þúsund dauðsföll. En sérfræðingar stofnunarinnar sem hafa metið ástand og horfur óttast að að minnsta kosti þrjú hundruð þúsund eigi eftir að deyja ef allt fer á versta veg. Þá blasi fátækt við hátt í þrjátíu milljónum.

Matshidiso Moeti, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Afríku, segir að kórónuveiran berist frá stórborgum í Suður-Afríku, Nígeríu, Fílabeinsströndinni, Kamerún og Gana út á landsbyggðina. Veirunnar hafi enn ekki orðið vart í fimmtán ríkjum. Verði landamærum þeirra lokað kunni þau að sleppa.

Yfirmaður Efnahagsaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Afríku, UNECA, sagði í dag að þörf væri á hundrað milljörðum dollara sem eins konar öryggisneti fyrir álfuna. Þar á meðal þurfi að fella niður skuldir verst settu ríkjanna. Stórauka þurfi skimun fyrir veirunni.

Sem dæmi er tekið að í Nígeríu þar sem búa um 200 milljónir hafi 442 tilfelli verið greind og þrettán hafi dáið úr COVID-19. Skýringin sé sú að þar hafi sárafá sýni verið tekin.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV