Hættulegt að nálgast þessa veiru eins og hverja aðra

17.04.2020 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Enn er vitað svo lítið um kórónuveiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum að það er hættulegt að nálgast hana eins og hún sé bara enn eitt dæmi um veiru sem við höfum áður séð og þekkjum í þaula. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands, fjallar um það á Vísindavef Háskóla Íslands að litlar líkur eru á því að þessi veira stökkbreytist í illvígara form og valdi illvígari sjúkdómi. Hann sagði meðal annars að afbrigðin af veirunni séu öll af sama stofni og ekki sé ástæða til að ætla að þær séu ólíkar eða misalvarlegar.

Kári segir að það sem Arnar fjallar um í grein sinni sé sannleikur um veirur almennt, en það sé ýmislegt varðandi þessa tilteknu kórónuveiru sem gerir það að verkum að almenni sannleikurinn hefur ekki sama vægi og venjulega.

Hafa fundið 570 stökkbreytingar

Kári bendir á að til dæmis hafi safnast saman mikill fjöldi stökkbreytinga í veirunni þrátt fyrir lága stökkbreytingatíðni vegna þess að hún hefur sýkt svo marga, fengið svo mörg tækifæri til þess að stökkbreytast. Kári segir að í 1.400 veirum sem Íslensk erfðagreining hefur raðgreint hafa fundist 570 stökkbreytingar.

Kári segir það rétt að þegar veira stökkbreytist þá eru mestar líkur á því að stökkbreytingin hafi engin áhrif, en þessi veira sé nokkuð öðruvísi.

„Skepnan sem er að herja á okkur núna hefur séð við þessu með því að einkenni af henni eru það mismunandi að sumir segja að í þeim hafi sjúkdómurinn verið eins og léttvægt kvef en aðrir lenda á gjörgæsludeildum í öndunarvél. Þar af leiðandi eru þeir sem veiran fer um mjúkum höndum til staðar til þess að halda áfram að smita út um allt meðan aðrir deyja,“ segir Kári.

Hið ólíklega verður raunverulegur möguleiki

Kári segir að veiran hafi því fundið leið til þess að hoppa greiðlega milli sumra manna sem hún meiðir lítið meðan hún þess á milli deyðir aðra.

„Það er svo sannarlega möguleiki á því að stökkbreytingarnar auki getu veirunnar til þess að smita meðal annars með því að minnka enn meira einkenni flestra sem af henni smitast á sama tíma og hún verði enn banvænni þeim sem eru veikir fyrir.“

Mesta hættan af stökkbreytingum er að þær svindli veirunni framhjá ónæmi og hún verði þannig árviss hörmung í líkingu við inflúensuna. Kári segir því býsna djarft að halda því fram, eins og gert var í grein Arnars á Vísindavefnum, að stökkbreytingar þessarar veiru skipti engu máli.

„Veiran hefur nú þegar fundist í yfir tveimur milljónum manns og þar af leiðandi er fjöldinn af þeim vinkonum orðinn óendanlegur. Þegar leitað er í því óendanlega verður hið ólíklega raunverulegur möguleiki,“ segir Kári Stefánsson.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi