Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ekki hollt að afneita því sem maður einu sinni var“

Mynd: Benedikt / Benedikt

„Ekki hollt að afneita því sem maður einu sinni var“

17.04.2020 - 10:24

Höfundar

Nýlega kom úr safn með öllum þremur ljóðabókum Jóns Kalmans. Þar er að finna vandfundnar ljóðabækur höfundar sem flestir þekkja í dag sem sagnaskáld. „Lengi vel þá leiddi ég hugann ekkert að þessum ljóðum, þau voru hluti af næstum því öðru lífi og ég dæmdi þau hart,“ segir skáldið.

Ljóðabækur eru tímavélar auk þess að vera svo margt annað sem lesandinn finnur í þeim hverju sinni. Safn ljóða Jóns Kalmans, Þetta voru bestu ár ævi minnar, enda man ég ekkert eftir þeim, sem nú er nýkomið út, er slík vél sem ekki aðeins tekur þann sem les aftur til níunda áratugarins og upphafs þess tíunda heldur líka inn í hugarheim skálds sem lesendur í dag einkum dást að sem sagnaskáldi, skáldi veðurs og vinda, skáldi heiða og þorpa fyrir vestan, fyrir austan og suður með sjó. 

„Lengi vel þá leiddi ég hugann ekkert að þessum ljóðum, þau voru hluti af næstum því öðru lífi og ég dæmdi þau hart. Þar kom að fólk fór að spyrja eftir þessum bókum sem höfðu lengi verið ófáanlegar,“ segir Jón Kalman.

Já, ljóðabækurnar Með byssuleyfi á eilífðina sem kom út árið 1988 og Úr þotuhreyflum guða ári síðar, báðar í eigin útgáfu höfundar eru meira að segja vandfundnar á bókasöfnum. Að endingu kom svo ljóðabókin Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju árið 1993 og þá hjá alvöru forlagi en hún er líka löngu, löngu uppseld. Árið 1996 spratt svo fullskapað sagnaskáld fram með sagnasveiginn Skurðir í rigningu og eftir það ljóð ei meir. Að minnsta kosti ekki opinberlega fyrr en nú fyrir skömmu þegar Jón Kalman birti ljóðið Það sem við eigum eftir í tímariti Máls og menningar.

Var þar með runnin upp sú stund á ferli sagnaskáldsins dáða að standa með sinni fortíð? „Það er, held ég, hollt fyrir alla, kannski sérstaklega listamenn, að vera krítískir á það sem þeir hafa gert,“ er svar Jóns Kalmans. „En það er ekki hollt að afneita því sem maður einu sinni var. Og auðvitað eru í þessum ljóðum fullt af hlutum sem vissulega eru í mér enn þá og þessi ungi maður sem orti þessi ljóð, hann er sannarlega ég, hér og nú. Ég kannast vel við hann. En þau eru bernsk, þessi ljóð, inn á milli.“

Jón skrifar skemmtilegan eftirmála við ljóðasafnið þar sem hann dregur upp mynd af aðstæðum sínum sem verðandi skálds, hvað hann var seinn til forms en fljótur að finna þörfina til að tjá sig í orðum. Í eftirmálanum segir hann líka frá áhrifavöldum og hjálparhellum eins og frændanum sem hann uppgötvaði að hann ætti en hafði aldrei hitt og var eitt af virtu skáldunum upp úr miðri síðustu öld og er enn, Hannes Sigfússon. Og ungi maðurinn sendi frændanum ljóðin sín og fékk hvatningu skáldbróður áður en hann lagði í að fara með fyrsta handritið í prentsmiðju. Það er gott að Hannes rataði á réttu orðin og ljóðin í Með byssuleyfi á eilífðina fengu að rata til sinna og marka upphaf rithöfundaferils sem ekki sér fyrir endann á.

„Ég held að skáld og listamenn almennt, að þeir séu einhvers konar kvika og þess vegna næmari en margur annar, ekki af þvi að þau séu greindari eða eitthvað slíkt heldur er þetta eitthvað meðfætt, þessi kvika, eins og sumir eru handlagnir eða betri í fótbolta en aðrir. Og þessi kvika verður til þess að maður skynjar mannlífið á einhvern óræðari hátt, stundum dýpri hátt og þess vegna verða bækurnar oft dýpri og margþættari en höfundurinn, geta jafnvel nánast sagt fyrir um hluti sem ekki hafa gerst. Það er svo margt sem að opnast um leið og þú ferð að skrifa.“

Fyrsta ljóðið sem vakti meðvitaða athygli Jóns Kalmans þegar hann var unglingur, var ljóðið Refurinn eftir Örn Arnarson, ljóð sem „afhjúpar áreynslulaust mótsagnir í sjálfsmynd mannsins,“ eins og segir í eftirmála bókarinnar. Fyrsta stóra átrúnaðargoðið í ljóðlistinni var Jóni Kalman hins vegar Jóhann Sigurjónsson „með sitt dimma, seiðandi og sára magn. (...) Ég hef alltaf togast þarna á milli.“ Og þessar andstæður eru að mörgu leyti ráðandi á níunda áratugnum í íslenskri ljóðlist, sem var „mjög gjöfull,“ að mati Jóns og hann rekur skemmtilega í eftirmála ljóðasafnsins.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Jón Kalman tilnefndur til franskra verðlauna

Menningarefni

Allur hasarinn úr bókum Jóns Kalmans

Bókmenntir

Jón Kalman spilar á strengi lesenda

Bókmenntir

Ég verð að gera betur en síðast