Dómi fyrir árás og hótanir áfrýjað til Landsréttar

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja tólf mánaða dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir ungum manni sem var sakfelldur fyrir að ráðast á fyrrverandi kærustu sína í miðborg Reykjavíkur í október og fyrir að hóta barnsmóður sinni. Þetta staðfestir Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, í skriflegu svari til fréttastofu. Maðurinn er nú laus úr haldi eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan í október.

Dómurinn var kveðinn upp um miðjan mars en var birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur í vikunni.   

Maðurinn var handtekinn á vettvangi um miðjan október og úrskurðaður sex daga gæsluvarðhald.  Honum var sleppt þegar héraðsdómur hafnaði beiðni lögreglunnar um áframhaldandi gæsluvarðhald.  Sá úrskurður var kærður til Landsréttar sem sneri ákvörðun héraðsdóms við.

Réttarmeinafræðingur taldi árás mannsins á fyrrverandi kærustu sína hafa verið mjög grófa og harkalega og að stúlkan hefði getað verið í lífshættu á meðan henni stóð.

Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir að ráðast á sömu stúlku í september og fyrir að hafa sent annarri stúlku, barnsmóður sinni, hótanir í gegnum samskiptaforritið snapchat.  

Héraðsdómur sagði í dómi sínum að brotin hefðu beinst gegn heilsu og velferð tveggja ungra stúlkna, hann hefði notfært sér það traust sem þær báru til hans í ljósi sambands þeirra við hann.

Dómurinn taldi jafnframt að árásin gegn kærustunni fyrrverandi hefði verið einstaklega gróf og borið vott um algjört skeytingarleysi gagnvart lífi hennar. Honum var gert að greiða henni 1,7 milljónir en barnsmóður sinni 200 þúsund krónur. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi