Bolsonaro búinn að reka heilbrigðisráðherrann

17.04.2020 - 01:29
epa08365345 Brazilian Health Minister, Luiz Henrique Mandetta, takes part in a press conference on the impact of the COVID-19 pandemic, in Brasilia, Brazil, 15 April 2020. The number of deaths due to coronavirus in Brazil exceeded 1,700 this Wednesday, with more than 28,000 confirmed cases, amid tensions in the Government of Jair Bolsonaro and rumors of a possible resignation of the Minister of Health, Luiz Henrique Mandetta, denied by himself at least for now.  EPA-EFE/Joedson Alves
Luiz Henrique Mandetta, nú fyrrverandi heilbrigðisráðherra Brasilíu, stóð uppi í hárinu á forsetanum Bolsonaro í öllu því er lýtur að COVID-19. Fyrir það galt hann með embætti sínu.  Mynd: EPA-EFE - EFE
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, rak í gær heilbrigðisráðherra sinn úr embætti vegna ágreinings um ógnina sem stafar af COVID-19 og viðbrögð við henni. Ráðherrann, Luiz Henrique Mandetta, greindi frá þessu á Twitter í gærkvöld, skömmu eftir fund þeirra Bolsonaros í forsetahöllinni i höfuðborginni Brasilíu.

Bolsonaro hefur ítrekað gert lítið úr hættunni sem fólki stafar af COVID-19, líkt sjúkdómnum við venjulega flensu og sagt öll viðbrögð við faraldrinum yfirdrifin. Lætur forsetinn sér ekki nægja að forðast að grípa til aðgerða á landsvísu, heldur beitir sér hreinlega gegn því.

Mandetta hefur hins vegar talað fyrir hörðum smitvörnum og gefið út tilmæli þar að lútandi, sem flestir ríkisstjórar landsins hafa gert að sínum.

Bolsonaro hefur gagnrýnt hvort tveggja tilmæli ráðherrans og aðgerðir ríkisstjóranna og sagt þetta ekki aðeins óþarft heldur hreinlega til óþurftar, ekki síst fyrir efnahagslífið. Því hefur margoft slegið í brýnu milli forsetans og ráðherrans, sem nú hefur goldið fyrir staðfestuna með embættismissi. 

Tæplega 31.000 manns hafa greinst með COVID-19 í Brasilíu til þessa og staðfest dauðsföll af völdum sjúkdómsins nálgast að vera 2.000.  Ólíklegt þykir að þessar tölur gefi rétta mynd af útbreiðslu og áhrifum kórónuveirunnar í landinu, þar sem lítið er um sýnatökur og skimun. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi