Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bíða í mánuð á Seyðisfirði eftir Norrænu

17.04.2020 - 09:48
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Franskt par hefur þurft að dvelja í húsbíl sínum á Seyðisfirði í mánuð þar sem ferðir Norrænu hafa verið felldar niður. Þau hafa mátt þola kaldar nætur og drepa tímann með göngutúrum og bóklestri.

Horfa á frétt

Þau Carole Daniaud og Vincent Leclerc komu til landsins á húsbíl með Norrænu í desember. Þau skoðuðu landið en þegar þau ætluðu aftur af landi brott 25. mars kom engin ferja að sækja þau. Ferðum Norrænu var frestað vegna faraldursins. „Við þurfum að bíða eftir ferjunni þannig að við höfum verið hér í mánuð. Við förum og kaupum í matinn og gerum lítið annað,“ segir Carole.

Húsbíllinn umlukinn snjósköflum

„Einn morguninn þegar við vöknuðum náði snjórinn hingað,“ bætir hún við og dregur línu í axlarhæð. „Við vorum umkringd snjósköflum og komumst hvergi. Þetta gerðist ítrekað þannig að við urðum að spila í bílnum eða lesa í símunum okkar.“

Þau eru reyndar á löngu ferðalagi og er bíllinn þeirra eina heimili um þessar mundir. Þau hafa sjaldan lent í öðrum eins kulda. „Það var mjög kalt og inni í húsbílnum var hitinn stundum mínus fjórar gráður. Því var okkur stundum mjög kalt og við þurftum að kveikja á hitaranum,“ segir Carole og sýnir okkur rafmagnshitablásara og líka gashitara sem er innbyggður í húsbílinn.

Norræna kemur eftir helgi

Þau fá að nota aðstöðu í tjaldstæðishúsinu og kunna Seyðfirðingum þakkir fyrir margvíslega aðstoð. Norræna er byrjuð að sigla á ný og er væntanleg 21. apríl. Þau geta komist í land í Danmörku og um Þýskaland með undanþágu þar sem þau eru á heimleið. „Og að því loknu komumst við til Frakklands. Vonandi,“ segir Carole og skellihlær.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV