Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vildi ekki bjóða landsmönnum upp á pex um fundarstjórn

16.04.2020 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að það hafi komið í ljós strax við upphaf þingfundar í morgun að stjórnarandstaðan hafi ekki viljað nota hann til að spyrja ráðherra út úr eða ræða þau mál sem voru á dagskrá. Því hafi hann ákveðið að slíta fundi strax frekar en að bjóða upp á deilur um fundarstjórn eða ásakanir um að þingið gæti ekki farið að sóttvarnarlögum.

Þingfundur hófst á Alþingi klukkan hálf ellefu í morgun og innan við fimm mínútum síðar var búið að slíta honum. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, fékk málið undir liðnum fundarstjórn forseta og gerði athugasemd við að umdeild mál væru á dagskrá. Þar vísaði hann til frumvarps Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um samvinnuverkefni við vegaframkvæmdir. Jón Þór sagði að þingmenn yrðu að mæta til umræðu um umdeild mál og taldi 26 þingmenn úr ræðustól Alþingis, meira en samkomubann leyfir. Steingrímur J. sleit þá fundi.

Fundað að ósk stjórnarandstöðu

„Ég var reyndar búinn að bjóðast til þess að láta það víkja ef þau vildu, en það virðist ekki hafa skipt máli,“ segir Steingrímur um vegamálafrumvarpið.

Steingrímur segist hafa haldið fundinn að ósk stjórnarandstöðunnar. „Hún hefur óskað eindregið eftir því að það verði helst ekki minna en tveir þingfundadagar í viku, jafnvel þó ekki þurfi að koma saman til að afgreiða brýn COVID-mál. Ég hef fallist á það. Ég hef skilning á óskum stjórnarandstöðunnar til að fá vettvang til að spyrja ríkisstjórn út úr, veita henni aðhald, og féllst þess vegna á að boða til þingfundar í dag.“ Hann hafi fallist á að hafa bæði óundirbúnar fyrirspurnir og liðinn störf þingsins á dagskrá.

Mynd: Skjáskot / RÚV

Vildi ekki bjóða upp á deilur í þingsal

„Ráðherrar mættu mjög vel. Þarna voru formenn allra stjórnarflokkanna og þrír lykilráðherrar í viðbót,“ segir Steingrímur. „Þegar ég svo sá að stjórnarandstaðan ætlaði ekki einu sinni að leyfa fundinum að hefjast, ætlaði ekki einu sinni að leyfa óundirbúnum fyrirspurnatíma að fara fram, og að það stefndi í einhverja langa lotu um fundarstjórn forseta þá sá ég ekki ástæðu til að vera að halda þennan fund, út af því að stjórnarandstaðan vildi ekki nota hann til þess að spyrja ráðherra út úr eða með öðrum hætti eiga þannig samskipti.“

„Ég vildi ekki fara að bjóða landsmönnum upp á það að horfa á þingið sitt í einhverju pexi um fundarstjórn forseta, hvað þá að liggja undir ásökunum um að vera að stofna lífi og heilsu í hættu með því að við gætum ekki uppfyllt tilmæli sóttvarnaryfirvalda,“ segir Steingrímur. „Ég held að það sé ekki eftirspurn eftir því úti í þjóðfélaginu að Alþingi Íslendinga sýni af sér slíkar hliðar. Þá er betra að sleppa því að funda.“

Vill þoka þingmálum áfram

Steingrímur segir að dagskráin sé algjörlega í samræmi við áform um að þingið noti tímann til 4. maí, eftir því sem hægt er en uppfylli um leið allar sóttvarnatakmarkanir. „Það getum við gert með því að þoka málum eitthvað af stað í þinginu,“ segir Steingrímur. „Í slíkum umræðum þarf ekki nema frummælanda málsins, ráðherrann, og þá sem ætla að taka til máls.“

Hann segir eðilegt að þingfundir séu notaðir til að þoka störfum þingsins áfram. „Það er ekki búið að leggja Alþingi Íslendinga niður. Það hefur áfram mikið verk að vinna og mun á næstu dögum og vikum færast smátt og smátt í venjulegt horf með sín mikilvægu störf og þar á meðal að reyna að bjarga heilmikilli uppskeru eftir vinnu vetrarins.“

Til í að láta málið mæta afgangi

Aðspurður hvort ekki hefði verið hægt á þessum tímapunkti að taka vegamálafrumvarpið af dagskrá en halda áfram að öðru leyti svarar Steingrímur: „Ég var búinn að senda þingflokksformönnum skilaboð um að það mætti mæta afgangi ef það leysti málin. Þetta snerist um eitthvað annað en að held ég. Ég held að einhverju leyti hafi verið takmarkaður áhugi fyrir því að það væri neitt á dagskrá og þingið noti tíma sinn í neitt nema það sem stjórnarandstaðan sjálf er sátt við. Þannig getur það ekki verið. Við verðum að ná einhverju sanngjörnu samkomulagi hér um málin og tilhögun funda.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV