Tugir leitað til Neytendasamtakanna vegna endurgreiðslu

16.04.2020 - 17:11
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Formaður Neytendasamtakanna segir að tugir félagsmanna hafi leitað til samtakanna vegna þess að tafir hafi orðið á endurgreiðslu á flug- eða pakkaferðum sem fallið hafi niður vegna heimsfaraldursins. Upplýsingafulltrúi Icelandair segir að endurgreiðslur geti tekið lengri tíma en undir eðlilegum kringumstæðum.

Neytendur eiga rétt á því að fá pakkaferð endurgreidda innan 14 daga frá því hún er felld niður og flug innan sjö daga frá niðurfellingu. 

„Við erum að aðstoða fjölmarga félagsmenn sem ekki hafa fengið endurgreitt innan tíma, bæði frá flugfélögum og ferðaskrifstofum,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Aðspurður hvort þetta séu bæði innlend og erlend félög segir hann svo vera. Neytendasamtökin reki evrópsku neytendaaðstoðina en þangað geti neytendur leitað vegna fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu. Þurfi neytandi aðstoð vegna til dæmis norsks félags þá geti viðkomandi fengið aðstoð norsku deildarinnar við það. 

Breki segir að málafjöldi hafi aukist um 25 prósent í mars miðað við sama mánuð í fyrra út af kórónuveirunni, eða úr 419 í 525 mál. „Og málunum hefur bara fjölgað,“ segir Breki. 

Flýgur brot af flugáætluninni 

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Icelandair, segir erfitt að segja til um hversu mikill fjöldi ferðanna er orðinn sem felldur hefur verið niður vegna heimsfaraldursins. Flugfélagið fljúgi ekki nema örlítið brot af sinni flugáætlun þessa dagana.

Aðspurð segist hún ekki hafa fjölda þeirra sem sótt hafi um endurgreiðslu á ferðum sem felldar hafa verið niður. Eins og fleiri flugfélög bjóði Icelandair upp á inneignarnótu fyrir upphæðinni sem var varið í ferðina. „Sumir vilja bóka fram í tímann, aðrir inneignarnótu eða endurgreiðslu,“ segir Ásdís. Þeir sem velji inneignarnótu geti notað hana innan þriggja ára og geti valið annan áfangastað ef þeir vilja. 

„Endurgreiðsluferlið getur tekið lengri tíma en undir eðlilegum kringumstæðum en við erum að leggja okkur fram við að finna lausnir sem henta,“ segir Ásdís. Unnið sé að þessu allan sólarhringinn og starfsfólk alls staðar að úr fyrirtækinu verið kallað til aðstoðar. „Þetta er mikil vinna.“

Ásdís segir að flugáætlun Icelandair sé uppfærð viku fram í tímann og erfitt að spá lengra fram í tímann. „Þau flug sem eru á áætlun eru listuð á heimasíðu okkar.“  

Brúarlán til að standa undir endurgreiðslum

Breki segir að í Danmörku hafi stjórnvöld veitt ferðatryggingasjóði landsins 1,5 milljarða danskra króna ríkisábyrgð til að tryggja að ferðaskrifstofur landsins gætu endurgreitt sínum viðskipavinum innan lögbundins tíma. Ferðaskrifstofurnar hafi síðan tíu ár til að endurgreiða. Breki segir að slík brúarlán geri ferðaskrifstofum betur kleift að standa við skuldbindingar um endurgreiðslur innan ákveðins tímafrests. 

„Ef þetta á að ganga þá verður ríkið að ganga inn í,  annars getur farið illa hjá mörgum fyrirtækjum,“ segir Breki. Það gagnist engum. „Það er allra hagur að fyrirtækin fái brúarlán með þessum hætti sem þau svo endurgreiða.“ Þessi háttur geti komið í veg fyrir að neytendur beri allan skaðann og að fyrirtæki fari á hausinn.

Breki segir þörf á því að skoða tryggingakerfið hér á landi. Það sé ekki að virka fyrir neytendur. Það sé dýrt, ógagnsætt og óhagstætt bæði fyrir fyrirtæki og neytendur. „Þetta myndi bæta stöðu neytenda og fyrirtækja og vera tímabundin innspýting inn í þennan geira sem yrði svo greidd upp á einhverjum tíma.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi