Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það eru enn tæpar þrjár vikur þangað til“

Mynd: Lögreglan / Lögreglan
„Í dag er 16. apríl, það er ekki kominn 4. maí eins og margir virðast halda að hafi orðið í vikunni. Við höfum fengið dálítið mikið af ábendingum um að fólk sé farið að slaka á. 4. maí er eftir tæpar þrjár vikur. Munum það.“ Þetta sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann sagði að ábendingar hafi borist um að fólk sé farið að slaka á og sumir séu hættir að virða samkomubannið. Tilslakanir taka ekki gildi fyrr en 4. maí.

Víðir sagðist hafa tekið eftir því að fólk sé meira á ferli og að hann óttist bakslag.

„Já við gerum það. Við fengum það á tilfinninguna, sérstaklega í gær, að fólki væri létt. Við áttum svo sem von á því að fólki væri létt en við áttum ekki endilega von á því að fólk myndi strax hugsa að 4. maí væri kominn. Það eru enn tæpar þrjár vikur þangað til þannig að við verðum bara að bíða og sjá. Við erum ennþá að berjast við þetta af þeim krafti sem við erum búin að vera að gera síðustu vikurnar. Og ég held að þegar menn hugsi sig um hafi enginn áhuga á því að við fáum bakslag. Maður skilur að fólki hafi verið létt og fólk hafi kannski aðeins farið að gera það sem það er ekki vant að gera, en við verðum að muna að það gilda ennþá sömu reglur og hafa gilt síðustu vikur, og ekki að ástæðulausu.“ 

„Við erum ekki komin þangað“

Víðir sagði að ábendingar hafi borist um að fólk væri ekki að virða samkomubannið. Hann vildi þó ekki nefna nein dæmi um slíkar ábendingar.

„Við fundum það bara á mörgum stöðum að það er fleira fólk á ferli og fleira fólk á ákveðnum stöðum. Það er svo sem hlutur sem við höfum talað um áður, að fólk verður að halda áfram að lifa, það verður að halda áfram að fara í búðir og það verður að halda áfram að versla og kaupa mat á veitingastöðum. Það er allt saman mjög jákvætt. En það eru stærri hópar sem okkur hefur verið bent á að hafi verið að hittast og að menn séu komnir í gírinn með það að nú sé bara orðið mjög stutt í þetta og menn farnir að plana næstu daga í einhverjum svona uppákomum sem er ekki orðið tímabært. Og ég minni aftur á að við erum ekki komin þangað. Og við vildum koma þessum skilaboðum mjög skýrt fram í dag, út af þessum vísbendingum sem við höfum verið að fá,“ sagði Víðir.