Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það er engin skömm í því að upplifa einmanaleika“

16.04.2020 - 14:48
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
„Það að vera einmana er ekkert sem maður á að fela. Það er engin skömm í því að upplifa einmanaleika“ segir Silja Ingólfsdóttir hjá Rauða krossinum. Hún var sérstakur gestur á daglegum upplýsingafundi almannavarna til að ræða um félagslega einangrun og einmanaleika á tímum kórónuveirufaraldursins. Hún lagði áherslu á að það geti hent hvern sem er að einangrast á einhverjum tímapunkti og verða einmana.

„Mörg okkar eru að upplifa félagslega einangrun með þeim erfiða fylgifisk sem er einmanaleikinn. Fyrir marga er þetta ný reynsla og þá getur verið erfitt að takast á við tilfinningarnar, streituna og vanlíðanina sem getur fylgt af því að við hreinlega kunnum það ekki,“ segir Silja. Þessar tilfinningar séu eðlilegar í jafn óeðlilegum aðstæðum og nú eru uppi. Ekki sé hægt að benda á eina orsök félagslegrar einangrunar en heimsfaraldur hjálpi ekki til. 

„Það er staðreynd að langvarandi félagsleg einangrun hefur slæm áhrif á heilsuna, bæði líkamlega og andlega, og vonandi þurfum við fæst að glíma við þetta lengi,“ segir Silja.

Allir eigi erindi og skipti máli

Rauði krossinn bjóði upp á ýmis úrræði eins og símavini, sem eru sjálfboðaliðar sem hringja í fólk og spjalla við það. Fólk geti hringt í 1717 og óskað eftir símavini eða fengið leiðbeiningar um úrræði sem henti því. Allir eigi erindi og ekkert erindi sé of lítið eða of stórt.

„Núna á meðan við búum við takmarkanir í félagslífinu þá hringja símavinir einu sinni á dag í fólk. Það felst öryggi í því að vita að það sé einhver sem hringir. Sérstaklega fyrir fólk sem býr eitt.“ 

Þá bendir  hún á að fólk geti gerst sjálfboðaliðar alls staðar á landinu, jafnvel tímabundið. Allir geti gert eitthvað, eins og að vera meðvitaðir um nágranna sína og fólk sem býr eitt. „Og taka eftir fólki, sjá það, brosa, heilsa, spjalla. Því við skiptum öll máli, hvert og eitt einasta.“