Syngur afmælislag fyrir drottninguna frá Seltjarnarnesi

16.04.2020 - 19:13
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Danska söngkonan Tina Dickow segir það mikinn heiður að taka þátt í afmælishátíðinni. Hún söng fyrir drottninguna í dag í beinni útsendingu, heima hjá sér á Seltjarnarnesi. „Ég hef margoft troðið upp fyrir hana og konungsfjölskylduna. Mér þótti því eðlilegt að ég væri með,“ segir Tina Dickow.

Í kvöld stýrir danska ríkisútvarpið fjöldasöng fyrir drottninguna. Fólk getur tekið undir, hvert í sínu lagi á heimilum sínum. „Þetta er orðið mjög vinsælt og við tökum þátt í því nú á afmælisdegi drottningar og ég ætla að syngja vinsæla vögguvísu,“ segir hún jafnframt.

Tina og maðurinn hennar, Helgi Hrafn Jónsson komu heim úr tónleikaferðalagi um miðjan febrúar, í tæka tíð fyrir heimsfaraldurinn. „Nú hef ég gengið um í íþróttabuxum í mánuð og nú þarf ég allt í einu að klæða mig upp, vera fyrir framan myndavélar, spila á gítar og muna söngtexta. Það er svolítið óraunverulegt finnst mér.“

Hún segir heiður að syngja fyrir drottninguna á afmælisdaginn. „Hún er sameiningartákn okkar í Danmörku og með þessum fjöldasöng bindumst við enn þéttari böndum. Það er mér mikill heiður að vera beðin að vera með.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi