Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir mokstur ekki hafa verið erfiðari í aldarfjórðung

16.04.2020 - 13:24
DCIM\100MEDIA\DJI_0254.JPG
 Mynd: Guðmundur Fylkisson - Aðsend mynd
Vegurinn norður í Árneshrepp var opnaður í gær en ófært hafði verið síðan fyrir páska. Hann og fleiri vegir sem falla undir G-regluna svokölluðu lokast í þrjá mánuði á ári á meðan mokstur liggur niðri. Aðrir vegir sem falla undir regluna eru enn lokaðir.

Ekki fært í Árneshrepp nema á fjórhjóladrifnum bílum

Stungið var í gegn norður í hrepp í gær og er nú verið að hreinsa af vegum. Jón Sigmundsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík, segir veginn einungis færan fjórhjóladrifnum bílum.

„Það er alveg hægt að komast á fólksbílum, en ég mun ekki mæla með því við nokkurn mann. Það mikil aurbleyta og eins og alltaf á þessum tíma eru steinar að hrynja úr hlíðunum sem geta farið undir bílana og annað,“ segir hann.

Töluverður snjóþungi og veðurhæð hefur verið í vetur. Jón segir að snjór hafi rýrnað um helming á tveimur vikum með hlýnandi veðri.

„Loksins fór veðrið aðeins að vinna með okkur.“

Jón segir marga innan Vegagerðarinnar norður á Ströndum á því máli að mokstur hafi ekki reynt svo á í um 25 ár. Ljóst sé að vinnan sé farin fram úr kostnaði.

„Þetta er búið að vera mjög lýjandi fyrir starfsmenn og verktaka. Mikið átak. Það er búið að vera svo mikil veðurhæð, vindurinn eiginlega aldrei hægur nema þegar hann er að snúa sér á milli átta. Suma daga var bara enginn friður allan daginn.“

Jón kveðst sannfærður um að vorið sé komið og vill meina að sumarið sé á næsta leyti.

„Það er einhver úrkoma og kuldi á sunnudag, en við krossleggjum fingur um að við verðum ekki illa úti í því.“

Mikill snjór á heiðum fyrir vestan

Enn er ófært yfir Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði á Vestfjörðum. Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, segir að mikill snjór sé á heiðum.

„Það hefur ekkert hlýnað nóg til þess að gera neinar hlákur uppi. Erum bara að hanga í þremur, fjórum gráðum. Það er ekkert að gerast uppi enn þá.“

Hann segir það eiga að skýrast á næstu vikum hvenær verði hægt að hefja mokstur. Nú sé unnið í haginn til að hægt sé leggjast beint í verkið þegar hlánar.

„Við erum í mokstri í Arnarfirði, Dynjandisvogi og Hrafnseyri. Vinna okkur í haginn þannig að þetta verði ekki allt í aurbleytu og veseni,“ segir Guðmundur

Enn lokað yfir Öxi og Breiðdalsheiði

Birgir Árnason hjá Vegagerðinni á Höfn segir þess vænst að mokstur á Öxi og Breiðdalsheiði hefjist sem allra fyrst.

„Það er verið að taka veginn út í dag. Það er að styttast í þetta, en það er mikill snjór á Öxinni. Kunnir menn tala um að það hafi aldrei verið meiri snjór. Það verður vonandi ekki seinna en eftir helgi sem verður byrjað,“ segir hann.

Mjófirðingar neyðast til að bíða

Enn er vegurinn í Mjóafjörð lokaður. Mjóifjörður og Árneshreppur eru einu byggðarlög á landinu sem lokast alveg yfir veturinn vegna G-reglunnar.

Ari Guðmundsson hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði segir að Mjófirðingar gætu þurft að bíða nokkra stund í viðbót eftir að mokað sé.

„Það er ekkert farið að hugsa um það enn þá. Það er ekki alveg í hendi alla vega,“ segir hann.

Aðspurður segir hann að vegurinn hafi ekki haldist lokaður svo lengi á síðari árum. Áður fyrr hafi þó oft þurft að bíða lengi eftir að veður skánaði.

„Það hefur verið oft í gegnum tíðina. Fyrir nokkrum árum var það ekki oft fyrr en í maí. Jafnvel ekki fyrr en fram undir miðjan maí.“

Hann er á sama máli og kollegar sínir. Tíðin nú hafi verið töluvert þyngri en undanfarna vetur.