Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýtt frá JóaPé x Króla, Myrkva og Emmsjé Gauta

Mynd: Emmsjé Gauti / Bleikt ský

Nýtt frá JóaPé x Króla, Myrkva og Emmsjé Gauta

16.04.2020 - 15:20

Höfundar

Páskarnir loksins búnir en það voru greinilega ekki margir lögbundnir frídagar að flækjast fyrir tónlistarfólkinu okkar því útgáfa var bara með hressasta móti. Í boði þennan fimmtudag eru nýjar útgáfur frá Emmsjé Gauta, Of Monsters & Men, JóaPé x Króla og fleirum.

JóiPé x Króli – Óska mér

Platan Í miðjum kjarnorkuvetri hefur verið tvö ár í vinnslu hjá JóaPé x Króla og inniheldur 19 lög sem koma út á morgun, föstudag. Nú í vikunni sendu piltarnir hressu síðan frá sér poppslagarann Óska mér á myndbandi til að fylgja plötunni eftir.


Emmsjé Gauti – Bleikt ský

Lögin Bleikt ský og Flughræddur komu út á myndbandi og streymisveitum um páskana. Lögin tvö eru á væntanlegri plötu frá Emmsjé Gauta sem rapparinn stefnir á að gefa út í maí.


OMAM – Circles

Hljómsveitin Of Monsters and Men var á tónleikaferðalagi í Ástralíu í janúar og tók lagið í beinni hjá einni af vinsælustu útvarpsstöðvunum í Sidney, Triple J. Lagið sem varð fyrir valinu var poppslagarinn Post Malone Circles og hljómsveitin var svo hress með útgáfuna að hún skellti sér í stúdíó og gerði „alvöru“ útgáfu fyrir útvarpsstöðvar til að spila.


Oyama – Spare Room

Þann 10. apríl sendi hljómsveitin Oyama frá sér þröngskífuna Opaque Days í sínum dreymandi og tilraunakennda stíl. Skífan inniheldur fimm lög frá sveitinni og þar af eru tvær endurhljóðblandanir.


Valborg Ólafsdóttir – Freefall

Lagið Freefall er fyrsta útgáfa hljómsveitar Valborgar Ólafs af nýrri plötu sem væntanleg er í haust. Henni til aðstoðar eru Orri Guðmundsson á slagverk og Elvar Bragi Kristjónsson á bassa og hljóðgervla auk Baldvins Freys Þorsteinssonar sem spilar á gítar.


Myrkvi – Skyline

Myrkvi er listamannsnafn Magnúsar Thorlacius en undanfarnar vikur hefur lag hans Sér um sig hljómað töluvert á öldum ljósvakans. Skyline er annað lag tónlistarmannsins. Það fjallar um sambandsslit og verður að finna á breiðskífu sem kemur út í haust.


Bistro Boy og Bjartmar Þórðarson – Moments

Síðast þegar við heyrðum í Frosta Jónssyni eða Bistro Boy í Undiröldunni var það vel heppnuð endurhljóðblöndun af lagi Teits Magnússonar Hvíti dauði. Að þessu sinni er hann með Bjartmar Þórðarson með sér í laginu Moments.


Birnir ft. Lil Benni – BRB Freestyle

Um páskana sendu rappararnir Birnir og Lil Benni út lagið BRB Freestyle þar sem kveður við nokkuð nýjan tón miðað við eldri verk. Laginu hefur verið vel tekið á streymisveitum. Nokkrum dögum síðar gáfu þeir út myndband við lagið sem unnið er af Geoffrey Skywalker.