Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Norræna flytur farþega á ný

16.04.2020 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
Von er á rúmlega tuttugu farþegum með Norrænu til Seyðisfjarðar í næstu viku. Bæjarstjóri segir þau vel undirbúin og að enginn farþegi komi í land án heilsufarsvottorðs.

Von er á 23 farþegum með Norrænu til Seyðisfjarðar í næstu viku. Það eru fyrstu farþegaflutningar ferjunnar í mánuð, allir farþegarnir eru á eigin vegum þar sem ekki er boðið upp á neinar hópferðir eins og er. Þetta kemur fram á austurfrett.is. Þar segir enn fremur að fyrirtækið hafi verið í nánu sambandi við sóttvarnalækni og Almannavarnarnefnd Austurlands um farþegaflutningana.

Smyril Line ákvað að hætta að taka við farþegum um miðjan mars til að stemma stigu við útbreiðslu farsóttarinnar og í ljósi þess að dönsk yfirvöld lokuðu landamærum sínum. 

Enginn í land án heilsufarsvottorðs

Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar, segir þau vera vel undirbúin. Farþegarnir fái ekki að koma í land án heilsufarsvottorðs og það verði vel tekið á móti fólkinu.

„Ég væri áhyggjufull ef það væru 500 manns um borð, en 23 farþegar eru örfáir þannig að ég tel að við getum höndlað það vel eins og flugfélögin eru að gera.“ Hún líti svo á að áhættan sé ekki meiri en á flugvöllum og heimild hafi fengist frá sóttvarnalækni.