Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Kraftaverk að þeir hafi allir lifað slysið af“

16.04.2020 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Helgi Valur Ingólfsson, sautján ára drengur sem var í bíl sem fór í sjóinn við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í janúar, er kominn heim af sjúkrahúsi. Drengirnir þrír sem voru í bílnum hafa því allir náð sér. Tveir þeirra eru fæddir árið 2002 og einn 2004. Móðir Helga Vals segir kraftaverk að þeir hafi allir komist lífs af úr slysinu.

Áfram í endurhæfingu á Grensás

Í lok febrúar fór Helgi Valur af Barnaspítala Hringsins á Grensásdeild þar sem hann hefur verið í endurhæfingu. Fyrir páska fékk hann að fara heim en verður þó áfram í endurhæfingu á dagdeild Grensáss næstu mánuði.

„Þetta er stór áfangi og alveg dásamlegt. Það er hreinlega kraftaverki líkast að þetta hafi farið svona vel,“ segir Sif Jóhannesdóttir, móðir Helga Vals.

Á morgun, 17 apríl, eru þrír mánuðir síðan slysið varð. Einn drengjanna komst upp úr sjónum af sjálfsdáðum en kafarar björguðu hinum tveimur. Þrjátíu mínútur liðu frá því að bíllinn lenti í sjónum og þar til drengirnir voru komnir á þurrt land.

Haldið sofandi í þrjár vikur

Drengurinn sem komst sjálfur upp var fljótlega útskrifaður af spítala en Helgi Valur og yngsti drengurinn lágu þungt haldnir á gjörgæslu. Notuð var sérstök kælimeðferð, þar sem þeir höfðu báðir verið lengi án súrefnis, og gekk sú meðferð vel. Hinn drengurinn var útskrifaður af Barnaspítala Hringsins í febrúar. Helgi Valur var lengst á gjörgæslu og var haldið sofandi í um þrjár vikur. Þegar lífsmörk hans voru orðin stöðug tók við dvöl á Barnaspítala Hringsins og loks á Grensási.

„Þetta er allt í rétta átt, sem betur fer, en það er mikil þjálfun framundan. Næstu mánuðir fara í endurhæfingu og við horfum bara bjartsýn fram á veginn, að það bætist eitthvað við á hverjum degi,“ segir Sif.

Fundu fyrir samhug bæjarbúa og landsmanna

Atvikið hafði mikil áhrif á samfélagið í Hafnarfirði og fólk var slegið. Fullt var út úr dyrum í bænastund sem haldin var í Hafnarfjarðarkirkju og áfallateymi Rauða krossins var virkjað. Sif segir að samhugurinn í samfélaginu hafi hjálpað fjölskyldunni mikið.

„Auðvitað er yndislegt að vita af þessu og við erum mjög snortin. Þessi samhugur bæjarbúa og landsmanna allra. Fólk sem var að biðja fyrir honum og biður enn. Þetta var eiginlega ótrúlegt. Við fundum fyrir þessu og finnum enn hvað fólk er dásamlegt. Við erum alveg ofboðslega þakklát.“

Þrekvirki unnið á slysstað og á sjúkrahúsinu

Sif segir ljóst að mikið þrekvirki hafi verið unnið. Bæði við umönnun drengjanna á Landspítalanum og á slysstað við höfnina. Vitni urðu að slysinu og samstundis var brugðist við.

„Við viljum færa hjartans þakkir til allra þeirra sem komu að björguninni á slysstað. Við erum þakklát læknum og hjukrunarfólki á gjörgæslu Landspítalans við Hringbraut, Barnaspítalanum og Grensás. Þetta er allt saman frábært fagfólk og á stað í hjörtum okkar. Alveg sama hvar við vorum, þar var yndislegt fólk sem vann af fagmennsku og hélt vel utan um okkur fjölskylduna,“ segir Sif.  

„Miðað við aðstæður fór þetta eins vel og það gat farið. Að þeir skyldu allir hafa lifað þetta af er kraftaverk.“