Jafnvægi milli þess sem maður vill og þarf að gera

Mynd: RÚV / RÚV

Jafnvægi milli þess sem maður vill og þarf að gera

16.04.2020 - 17:27
Sigrún Fjeldsted, námsráðgjafi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, segir nemendum ganga misvel að takast á við breytta tíma og kennsluhætti. Nú fara lokaprófin svo að skella á og þá er ýmislegt sem gott er að hafa í huga.

Sigrún leggur yfirleitt upp með fjóra þætti þegar kemur að því að ganga sem best í skólanum, yfirsýn, skipulag, tímastjórnun og rútínu. Yfirsýnin snýst um það að komast að því hvar maður sé staddur námslega, hvað er búið og hvað er eftir, mögulega er bara ein lokaritgerð eða eitt lokapróf eftir en maður áttar sig ekki á því af því maður hefur ekki yfirsýn. 

Þegar maður hefur skoðað hvenær skil eru á verkefnum, hvenær prófin eru og svo framvegis segir Sigrún gott að búa sér til skipulag. Í dag væri til dæmis sniðugt að setja upp mánaðarplan fyrir apríl og maí með öllum helstu dagsetningum sem skipta máli. 

Þá er svo hægt að fara í það að skipta þessum mánuðum niður í vikur og tímastjórna þeim. Vita hvað maður þarf að gera í vikunni, hvenær maður þarf að vakna, fara að sofa, læra og hvenær maður gefur sér tíma í eitthvað annað. „Þannig verður rútínan svo til. Við erum öll vön því að vera í rútínu, það var bara einhver annar sem bjó hana til fyrir okkur “ segir Sigrún.

„Það er alltaf erfitt að segja „Þú átt að gera þetta“ af því að við erum svo misjöfn. En við þekkjum sjálf okkur best og ef þú veist að þú munt enda á því að spila tölvuleik allan daginn þá þarft þú að gera einhverjar ráðstafanir. Þetta er jafnvægi milli þess sem okkur langar að gera og þess sem við þurfum að gera,“ bætir hún við.

Viðtalið við Sigrúnu í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Núllstillingin er á dagskrá á RÚV 2 alla virka daga milli 14 og 16.