Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hlúa sérstaklega að jaðarsettum hópum í farsóttarhúsum

16.04.2020 - 21:54
Mynd: RÚV / RÚV
Hátt í 50 manns hafa leitað skjóls í farsóttarhúsunum við Rauðarárstíg, sem eru nú tvö. Það er gert til að aðskilja jaðarsetta hópa frá öðrum. Gestir taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti segir sjáfboðaliði.

Fyrstu næturgestir farsóttarhússins komu byrjun mars. Hótelið er fyrir fólk sem þarf að vera í sóttkví eða einangrun og getur ekki verið heima hjá sér.

„Við erum með tíu gesti eins og við köllum þá. Við erum með þá í tveimur húsum og ástæðan fyrir því að við erum með tvö hús er að við erum með jaðarsetta hópa hérna hjá okkur,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa í Reykjavík.

Sem er fólk sem á við fíknivanda að stríða eða er heimilislaust. „Og ef að smit kemur upp í þessum hópum getur það dreifst mjög hratt og orðið mjög alvarlegt,“ segir Gylfi jafnframt.

Fólk tekur einangruninni eins og hverju öðru hundsbiti

Um 40 sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins hafa sinnt nærri fimmtíu gestum. Þau fá mat þrisvar á dag en eins og gefur að skilja þarf sérstakan viðbúnað til að færa þeim hann. „Um leið og maður er kominn í búnaðinn þá byrjar maður að svitna. Það er allt í lagi að klæða sig en vandinn er að fara úr honum. Þá þurfum við að passa okkur mjög vel og spritta hvert einasta stykki sem þú ferð úr,“ segir Gerður Helgadóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum.

Það kostar ekkert að gista í farsóttarhúsunum. Sumir hafa dvalið þarna í allt að mánuð. Vel er fylgst með líðan þeirra, bæði andlegri og líkamlegri. „Að öðru leyti sinnum við þessum grunnþörfum að þú hafi einhvern til að tala við,“ segir Gylfi. 

„Ég er alveg undrandi hvað fólk tekur þessu vel. Bara gegnumgangandi er fólk duglegt og tekur þessu eins og hverju öðru hundsbiti. En þetta er engin skemmtidvöl,“ segir Gerður.