Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Einn í einu í heimsókn á hjúkrunarheimili 4. maí

Mynd með færslu
Hrafnista. Mynd úr safni. Mynd: Rúv
Aðstandendur geta, með ströngum skilyrðum, heimsótt heimilisfólk á hjúkrunarheimilum frá og með 4. maí. Aðeins einn getur komið í heimsókn i einu. Stjórnvöld kynna reglurnar í næstu viku.

Aðeins einn í heimsókn í einu

Heimsóknir aðstandenda til heimilisfólks á hjúkrunarheimilum verða leyfðar með ströngum skilyrðum frá og með 4. maí. Aðeins einn fær að koma í heimsókn í einu. Vinnuhópur á vegum stjórnvalda og hjúkrunarheimila leggur þetta til, en tillögur hópsins verða kynntar nánar um miðja næstu viku.

Tillögurnar kynnta í næstu viku

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, er í vinnuhópnum. Hann segir að hópurinn, sem skipaður er fulltrúum Almannavarna, Embættis landlæknis, heilbrigðisráðuneytis og hjúkrunarheimila,  hafi fundað reglulega síðustu vikur um stöðuna á hjúkrunarheimilum.

„ Það er ánægjulegt að segja frá því, eða staðfesta það, að hópurinn er að undirbúa tillögur um tilslakanir á heimsóknarbanninu sem munu taka gildi strax 4. maí.  Fram að 4. maí verður óbreytt ástand. Þessar tilslakanir verða kynntar síðasta vetrardag, miðvikudag í næstu viku 22.apríl.  Það er verið að vinna tillögurnar næstu daga, en það verður farið mjög hægt í allar tilslakanir".

Mikill léttir að leyfa heimsóknir

„Grunnurinn gengur út á að það getur bara einn komið í heimsókn í einu samkvæmt ákveðnum reglum sem verið er að útfæra.  Aðalmálið er kannski að þetta verður mikill léttir. Þann 4. maí verður heimsóknarbann búið að standa yfir í tæpa 60 daga. Þetta eru auðvitað ótrúlegar aðstæður, eins og alþjóð veit" segir Pétur.

Nánar er rætt við Pétur og  Þórunni Sveinbjörnsdóttur, formann Landssambands eldri borgara, um málefni aldraðra í COVID-19 faraldrinum í Speglinum.
 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV