Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Einangrun farin að íþyngja fólki, segir Rauði krossinn

Mynd: Pexels / Pexels
Einangrun er farin að íþyngja fólki verulega, segir deildarstjóri hjá Rauða krossinum. Margir sem hringja í hjálparsímann eru mjög einmana og samtölin orðin erfiðari. Sóttvarnalæknir vill setja hömlur á komur ferðamanna hingað til lands, mögulega með sóttkví. Viðbúið er að á mörgum vinnustöðum vari breytt starfsemi mun lengur en til 4. maí. Áfram greinast fá ný kórónuveirutilfelli. 

Það er 16. apríl ekki 4. maí

Við upphaf upplýsingafundar minnti Víðir Reynisson á að það væri 16. apríl, ekki 4. maí. Það var að gefnu tilefni. 
 
„Við höfum fengið dálítið mikið af ábendingum um það að fólk sé farið að slaka á. 4. maí er enn þá eftir tæplega þrjár vikur, þannig að munum það,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum. 

Nánari upplýsingar um breytingar á samkomutakmörkunum, sem kynntar voru í fyrradag, verða ekki ljósar fyrir en í byrjun næstu viku með auglýsingu heilbrigðisráðuneytisins. 

Margir vinnustaðir verða lengi í þessu ástandi

Neyðarstig verður í gildi áfram eftir 4. maí. Á mörgum vinnustöðum eins og hjá Almannavörnum og lögreglunni hafa verið tvískiptar vaktir eða verkaskipting til að tryggja áframhaldandi starfsemi og minnka hættu á smiti. Það heldur áfram jafnvel næstu mánuði. 

„Það mun verða á meðan að við erum í þessu ástandi með einhverjum hætti, þá getum við ekki tekið neina sénsa. Og það eru mjög mörg fyrirtæki sem munu búa við það lengi í þessu ástandi, held ég,“ segir Víðir.

Vill líka hömlur á erlenda ferðamenn

Óljóst er um reglur í sumar um ferðir til og frá landinu, það skýrist í næstu viku. Allir sem búsettir eru hér og koma til landsins þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví. Það hefur ekki átt við um erlenda ferðamenn. 

„Ég tel mikilvægt að við könnum allar leiðir til þess að þetta gildi eða einhvers konar hömlur muni líka gilda um þá til þess að tryggja það að við fáum ekki smit hingað til Íslands,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Bara 587 smitaðir núna

Fá ný smit halda áfram að greinast, í gær voru þau tólf, fimm á höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum, og sitthvort smitið á Vesturlandi og Reykjanesskaga. Afar lágt hlutfall sýna var jákvætt. Aðeins 587 manns eru nú smituð af COVID-19. 

35 á spítala 

33 COVID-sjúklingar liggja á Landspítala, fimm á gjörgæslu, þar af þrír í öndunarvél. Og eins og í gær eru tveir með COVID á Sjúkrahúsinu á Akureyri, annar þeirra er á gjörgæslu. 

Heimsóknir leyfðar

Íbúar á hjúkrunarheimilum hafa ekki getað fengið heimsóknir svo vikum skiptir. Það horfir nú til betri vegar því eftir 4. maí verða heimsóknir leyfðar með ströngum skilyrðum meðal annars má aðeins einn koma í heimsókn í einu. 
 

Margir að upplifa einmanaleika í fyrsta sinn

Mest hefur auðvitað verið talað um sjúkdóminn COVID-19 undanfarið. Ástandið hefur líka aukaverkanir eins og til dæmis verri andlega líðan. Og þá er um að gera að leita hjálpar, til dæmis hjá heilsugæslunni eða Rauða krossinum. Fulltrúi hans talaði einmitt á upplýsingafundinum í dag. Þrjú þúsund sjálfboðaliðar vinna hjá Rauða krossinum, til dæmis í farsóttarhúsum, við að svara í 1717 og við að hringja í fólk. 

„Það eru margir áhyggjufullir. En það er að aukast að fólk er kvíðið,“ segir Silja Ingólfsdóttir deildarstjóri hjá Rauða krossinnum.  

„Margir eru mjög einmana og sumir í fyrsta skipti þannig að þeir kunna ekki alveg að takast á við það. Það eru svona jafnvel að þyngjast samtölin svolítið. Þetta er farið að íþyngja fólki, þessi einangrun. Það er fólk á öllum aldri, börn eru að hringja og nota netspjallið og unglingar og við erum mjög ánægð að þau skuli leita til okkar. Þetta eru mjög óeðlilegar aðstæður og það er mjög eðlilegt að finna þessar tilfinningar sem eru svona skrýtnar og við kunnum ekki alveg á. Einmanaleikinn er ein þeirra og það á enginn að skammast sín fyrir að vera einmana. Heldur við getum hringt í 1717 og fengið símavin, sem hringir þá daglega í viðkomandi.“

Brosum og heilsum fólki

Og Silja er líka með ábendingar sem allir geta tekið til sín:

„Það sem við getum líka öll gert er bara að taka eftir fólkinu í kringum okkur, brosa, spjalla og heilsa fólki. Það er allir úti að ganga, að heilsa fólkinu, sem maður mætir. Og brosa bara sjá, ég sé þig, þú ert líka mikilvægur.“