Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Yfir 1200 skráðir í skimun á Vestfjörðum

epa08338984 A medical doctor performs af mouth swab on a patient to be tested for novel coronavirus disease (COVID-19) in a new tent extension of the Danish National Hospital Rigshospitalet in Copenhagen, Denmark, 02 April 2020.  EPA-EFE/NIELS CHRISTIAN VILMANN  DENMARK OUT
Skimað fyrir kórónuveiru. Mynd úr safni. Mynd: EPA-EFE - Ritzau-Scanpix
Yfir tólf hundruð hafa skráð sig í skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir COVID-19 á Vestfjörðum. Óvíst er hvort hægt verður að slaka á aðgerðum fyrir vestan í byrjun maí líkt og annars staðar á landinu.

Skimunin hófst í morgun á fimm stöðum á Ísafirði og í Bolungarvík og stendur fram á föstudag. Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir uppbókað í skimun og þegar í skoðun að bæta í.

„Það eru nú þegar 1200 sem eru búnir að bóka sig. Við erum að skoða hvort við getum fjölgað plássunum og farið þá upp í alla vega 1500 áður en vikunni lýkur,“ segir Gylfi.

Ná 2000 prófum við vikulok

Þegar hafa 500 sýni verið tekin þar vestra og mætti því búast við að yfir 2000 manns hafi verið prófaðir á Norðurfjörðunum að skimuninni lokinni sem er nálega helmingur íbúa. Skimun fer því næst fram á Suðurfjörðunum eftir helgi.

Gylfi segir að góð aðsókn hafi verið viðbúin.

„Íslensk erfðagreining sagði að það væri alltaf tekið mjög vel í þetta og það væri ekkert vandamál að fylla plássin. Svo náttúrulega hefur samfélagið hérna verið á hliðinni vegna þess að það hafa verið samfélagssmit. Þess vegna er ekkert skrítið að fólk skuli flykkjast í þetta,“ segir hann.

Óvíst hvort slakað verði á aðgerðum 4. maí

Hertar aðgerðir eru enn í gildi á norðanverðum Vestfjörðum og verða það til 26. apríl hið minnsta. Gylfi segir ekki vitað hvort hægt verði að hefja afléttingu samkomubanns 4. maí líkt og á að gera annars staðar á landinu.

„Hvort að slakað verði á kröfunum þarna undir lok apríl og við munum fylgja landinu öllu í upphafi maí, eða hvernig þetta verður. Það er bara ekki búið að taka ákvörðun. Það mun bara ráðast eftir því hvernig smit þróast hér á svæðinu.“