Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vigdís Finnbogadóttir 90 ára í dag

15.04.2020 - 11:52
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er 90 ára í dag. Þessum tímamótum er fagnað með ýmsum hætti. Vigdís var forseti í 16 ár, frá 1980 til 1996. Hún var fyrsta konan í heiminum sem varð þjóðkjörin forseti. Í sumar verða 40 ár frá því að hún tók við embætti forseta.

Þegar Vigdís var forseti lagði hún rækt við tungumál, menningu og skógrækt. Frá því að hún lét af embætti hefur hún víða látið til sín taka. Hún hefur meðal annars verið velgjörðar-sendiherra tungumála hjá UNESCO, menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Menningarverðlaun Vigdísar verða afhent í fyrsta sinn í kvöld á hátíðardagskrá sem verður henni til heiðurs á RÚV. 

Að þessari dagskrá standa Háskóli Íslands, íslensk stjórnvöld, Reykjavíkurborg og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, í samvinnu við Ríkisútvarpið og Hörpu, ásamt fjölda félagasamtaka og fyrirtækja.

Til stóð að halda upp á daginn í Háskólabíói en hætt var við það vegna kórónuveiru-faraldursins. Í staðinn verður afmælisdagskráin Til hamingju Vigdís á RÚV í kvöld, klukkan 20. Þar koma fram fjölmargir listamenn og Vigdísi verða fluttar kveðjur.

 

Mynd: RÚV / RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV