Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Vigdís braust úr fjötrunum með hugrekki og gáfum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Vigdís braust úr fjötrunum með hugrekki og gáfum“

15.04.2020 - 14:36

Höfundar

„Maður fer sko alltaf hressari af fundi með henni. Það er svo mikil orka og ljós í kringum hana að það er óviðjafnanlegt,“ segir Steinunn Sigurðadóttir um Vigdísi Finnbogadóttur vinkonu sína sem í dag fagnar 90 ára afmæli sínu. Af því tilefni er endurútgefin bók Steinunnar um forsetatíð Vigdísar sem áður kom út 1988.

Í sumar eru 40 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. Hún var fyrsta konan í heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja. Í ár eru því tvöföld tímamót í lífi Vigdísar því hún fagnar 90 ára afmæli sínu í dag og er bókin Ein á forsetavakt endurútgefin að því tilefni. Bókin geymir lýsingu Steinunnar Sigurðardóttur skálds á lífi og störfum Vigdísar.

Mynd með færslu
 Mynd: SagaFilm
Steinunn og Vigdís við tökur á heimildarmynd um þá síðarnefndu

Ein á forsetavakt kom fyrst út árið 1988, í miðri forsetatíð Vigdísar, og naut hún gífurlegra vinsælda og varð söluhæsta bók þess árs hér á landi. Endurútgáfunnar er beðið með mikilli eftirvæntingu en hún hefur að geyma nýjan for- og eftirmála eftir Steinunni þar sem hún setur atburði í lífi Vigdísar í nýtt samhengi áranna.

Höfundur bendir meðal annars á að þegar Vigdís var kjörin forseti árið 1980 hafi stjórnmálalandslagið á Vesturlöndum verið vægast sagt einsleitt. Til dæmis hafi um 95% þingmanna á Norðurlöndum verið karlar á þessum tíma og því augljóslega ekki auðvelt fyrir konu að komast að. „Það að kona sé kjörin forseti verður því eiginlega bara merkilegra og merkilegra,“ segir Steinunn í samtali við Mannlega þáttinn á Rás 1. Hindranirnar hafi enda verið ófáar á vegi Vigdísar sem gafst þó aldrei upp. „Kona fædd 1930 og alin upp af framsækinni móður er samt bundin af ákveðnum hugsunarhætti. Vigdís hefur þurft að brjótast úr fjötrunum með ótrúlegu hugrekki og gáfum. Hvernig á að fara að hlutunum, hún finnur alltaf út úr því, og það er magnað að fylgjast með því.“ Hróður Vigdísar hefur sannarlega borist víða, það þekkir heimsborgarinn Steinunn: „Hvar sem maður kemur er það þetta sem fólk veit um Ísland.“

Steinunni og Vigdísi er líka vel til vina og halda þær góðu sambandi. Vinátta þeirra hófst reyndar mörgum árum áður en bókin kom út. Í formála endurútgáfunnar segir Steinunn á persónulegum nótum frá kynnum þeirra sem hófust þegar Steinunn var enn í menntaskóla. „Við kynntumst þegar ég var í aukatímum í frönsku hjá henni á Aragötu þar sem Vigdís býr enn,“ rifjar Steinunn upp. „Vigdís hefur verið mér fyrirmynd og kennari frá því ég var unglingur. Hún hefur haft gífurleg áhrif á mig eins og marga aðra, flesta aðra þó úr meiri fjarlægð.“

Steinunn kveðst stolt af bókinni og því að eiga þátt í að halda til haga hvernig Vigdís hefur starfað og hugsað. Og fóru skáldið og fyrrum Forseti yfir bókina saman fyrir endurútgáfuna og ræddu það sem þar kemur fram en Steinunn viðurkennir að þó samverustundirnar hafi verið ljúfar þá þyki Vigdísi ekki alltaf þægilegt að lesa um sjálfa sig. „Hún er ekki með þetta ógurlega egó og athyglisþörf sem margir hafa sem hafa komist svona langt í lífinu,“ segir Steinunn sposk. „En allt brall með henni er skemmtilegt.“

Steinunn sló á þráðinn til Vigdísar í gær en hún hyggst ekki ónáða hana á sjálfan afmælisdaginn. „En maður fer sko alltaf hressari af fundi með henni. Það er svo mikil orka og ljós í kringum hana að það er óviðjafnanlegt.“

Til stóð að halda upp á daginn í Háskólabíói en vegna kórónuveirufaraldursins verður í staðinn afmælisdagskráin Til hamingju Vigdís á RÚV í kvöld kl. 20 þar sem fjölmargir listamenn koma fram.

Rætt var við Steinunni Sigurðardóttur í Mannlega þættinum.

Tengdar fréttir

Innlent

Vigdís Finnbogadóttir 90 ára í dag

Vigdísi fagnað á Aragötu — myndskeið