Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verðum að halda fullri einbeitingu til 4. maí

Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Byrjað er að mæla mótefni gegn kórónuveirunni hérlendis. Fáir greindust með hana í gær. Þótt slökun á samkomubanni eftir 4. maí hafi verið kynnt í gær þarf að muna að halda fullri einbeitingu þangað til, segir yfirlögregluþjónn. 

Útfærslan kynnt í kringum helgina

Auglýsing um útfærslu á afléttingu samkomutakmarkana verður birt öðrum hvorum megin við helgina. 

„Við töldum marga kosti að láta vita af þessu með góðum fyrirvara hvað við ætluðum að gera en á sama tíma er hætta á að við förum strax að hegða okkur samkvæmt þessu,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra.

„Við þurfum að halda áfram. Við erum bara í slagnum enn þá og þurfum að ná að halda fullri einbeitingu til 4. maí. Og þá slökum við aðeins á en samt sem áður, þetta er langtímaverkefni en núna megum við ekki neitt slaka á, ekki neitt.“

Sjö ný smit og fjórir í öndunarvél

Aðeins sjö greindust með smit í dag; fimm á höfuðborgarsvæðinu og tvö á Vestfjörðum. Innan við þrjú prósent sýna á veirufræðideild Landspítalans voru jákvæð og og innan við hálft prósent hjá Íslenskri erfðagreiningu. Fimm vikur eru síðan svo fáir greindust. 

32 COVID-smitaðir liggja á Landspítala, þar af sjö á gjörgæslu og þrír þeirra í öndunarvél. Tveir eru á Sjúkrahúsinu á Akureyri og annar þeirra í öndunarvél. 

Valkvæðar skurðaðgerðir brátt leyfðar á ný

Búist er við að hápunktur í álagi á spítölum verði afstaðinn um helgina. Fari svo ætlar landlæknir að leggja til við heilbrigðisráðherra á mánudaginn að valkvæðar skurðaðgerðir og speglanir verði leyfðar. Til stóð að bannið gilti út maí. 

Í næstu viku verða tilkynntar tillögur um tilslakanir á heimsóknarbanni á hjúkrunarheimili. 

Tillögur um ferðahömlur að verða tilbúnar

„Við höfum töluvert rætt um það undanfarið og ég hef minnst á það að það þurfi að setja einhvers konar hömlur á ferðamenn bæði erlenda og íslenska,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Starfshópur er að leggja lokahönd á tillögur um þetta. Sóttvarnalæknir vonast til að hægt verði að greina frá tilmælum um ferðahömlurnar öðrum hvorum megin við helgina. 

„Ég held að sóttvarnarapparatið hljóti að beina sjónum að því hvernig tekist á við faraldurinn í hverju landi fyrir sig, þ.e.a.s. ég reikna með því að við verðum treg til þess að láta fólk koma inn í landið frá landi þar sem faraldurinn er enn þá í hámarki,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. 

Mótefni hefur þegar verið mælt hjá 800 manns

Íslensk erfðagreining hefur skimað hjá 28.300 manns, þar af rúmlega fimm þúsund fyrir veirufræðideild Landspítalans. 

Þá er búið að taka blóðsýni til að mæla fyrir mótefni hjá 800 manns. Athugað er hvort fólk myndar almennilegt ónæmi gegn veirunni og hversu margir eru með mótefni þótt þeir hafi ekki fengið sjúkdómseinkenni. 

„Og á grundvelli þessa er hægt að meta líkurnar svolítið á því að svona faraldur blossi upp aftur.“

Við vitum hvað er í vísindagreininni

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar, landlæknis og Landspítalans birtu í gær grein í New England Journal of Medicine um útbreiðslu veirunnar hér og að fundist hafi 130 stökkbreytingar í henni sem ekki hafi fundist annars staðar. 

„Að vísu er svolítið meiri áhersla á niðurstöðuna sem kom út raðgreiningunni af því að það bendir til sögu veirunnar, hvernig hún hefur breyst þegar hún hefur verið að ferðast um heiminn. Annars er þetta bara lýsing á þvi sem við öll vitum og erum búin að hlusta á á hádegisfundum þeirra þremenninga,“ segir Kári.