Tískan 2020 inniber diskókraga og satínskyrtur á karla

Mynd: RÚV núll / Núllstilling

Tískan 2020 inniber diskókraga og satínskyrtur á karla

15.04.2020 - 15:31
Karen Björg Þorsteinsdóttir tískudrottning RÚV núll er fastur gestur Núllstillingarinnar í hverri viku. Hún fór yfir það sem fram undan er á árinu í tísku.

Trend hvers árs og jafnvel árstíðar eru margbreytileg en eins og Karen greindi frá í viðtalinu eru tískuhúsin með útsendara á sínum snærum sem taka saman spá sína um hvað mun slá í gegn hverju sinni. Hönnuðir tískuhúsanna taka sig svo til og hanna flíkur sem ríma við spánna í þeirri von að tískumeðvitaðir kaupendur taki upp veskin. 

Spáin í ár tekur mikið mið frá sjöunda áratugnum, eða diskótímabilinu, en nánast öll vinsælustu trend þessa árs má heimfæra þangað. Þetta eru: 

Diskókragi - oddhvass stór kragi sem stelur þrumunni.

Heklaðar flíkur - Þetta minnir helst á hippatímabilið. Heklaðar flíkur sem væri hægt að búa til heima hjá sér. 

Satín skyrtur fyrir karlmenn - Þetta er diskó eins og það leggur sig. Efni sem við höfum ekki séð í herraflíkum í langan tíma. 

Taska yfir axlir fyrir herra - Það þykir ekki lengur smart að vera með alla vasa úttroðna af nauðsynjum. Nú er að verða vinsælla að karlmenn noti handtöskur með langri ól yfir öxl og brjóstkassa. Nytsemi handtöskunnar hefur auðvitað verið konum lengi kunn. 

Jakkaföt fyrir konur með stuttum jakka - Buxnadragtinn dettur kannski aldrei úr tísku en nú er sérstaklega stuttur jakki við buxur sem eru háar í mittið málið. 

Vesti - Já það er diskó áfram. Vesti yfir skyrtur og boli er heitt árið 2020. 

 

Núllstillingin er í loftinu alla virka daga frá 14 til 16 á meðan samkomubanni stendur. Þú getur séð þáttinn á RÚV 2 eða ruv.is. 

Tengdar fréttir

Merkjavörur ekki alltaf góð fjárfesting