Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Svolítið skrítið að opna sig með þessum hætti“

Mynd: Arndís Þórarinsdóttir / Arndís Þórarinsdóttir

„Svolítið skrítið að opna sig með þessum hætti“

15.04.2020 - 14:06

Höfundar

Arndís Þórarinsdóttir sendi nýlega frá sér sína fyrstu ljóðabók. Innræti heitir bókin þar sem kona snýr innhverfunni út, innhverfu sem bæði er ímynduð eða skálduð og raunveruleg. Þegar að útgáfunni kom var ekki aðeins búið að setja á samkomubann heldur var ljóðskáldið beinlínis sjálft í sóttkví og því ekki annað í stöðunni en að halda rafrænt útgáfuboð, sem var ekki eins einmanalegt og hún hélt.

Arndís Þórarinsdóttir sendi frá sér sína fyrstu bók, unglingabókina, Játningar mjólkurfernuskálds árið 2011 en hafði þá um nokkurra ára skeið birt smásögur í tímaritum og hún var einn höfunda í draugsagnasafninu At og aðrar sögur sem kom út árið 2008. Þá er Arndís höfundur tveggja „Nærbuxna“-bóka, Nærbuxnaverksmiðjan kom út árið 2018 og Nærbuxnanjósnararnir árið 2019 og hefur hún einnig skrifað lestrarbækur fyrir Námsgagnastofnun.

Að loknu námi í bókmenntafræði við HI og námi í leikritun við Goldsmiths háskólann í London starfaði Arndís í nokkur ár á bókasafni Kópavogs auk þess sem hún skrifaði greinar í blöð og stundaði þýðingar. Það var svo árið 2015 að Arndís tók sér námsleyfi og hóf enn á ný nám í skapandi skrifum og innritaðist í meistaranám í ritlist það sama ár. Í námsleyfinu gaf Arndís sjálfri sér það loforð að taka öllum tilboðum sem bærust og prófa alls konar sem hún hafði aldrei prófað áður. Eitt af því sem Arndís prófaði var að skrifa ljóð og senda í hina virðulegu ljóðasamkeppni, Ljóðstaf Jóns úr Vör, þar sem ljóð eftir hana hlaut viðurkenningu.

Að lesa ljóð er eins og að læra nýtt tungumál

Í ritlistarnáminu tók hún meðal annars námskeið í ljóðlist hjá Sigurði Pálssyni og fólst námið ekki síst í því að lesa ljóð. „Að lesa ljóð er svolítið eins og læra nýtt tungumál,“ sagði Arndís í rafræna útgáfuboðinu í tilefni að útkomu fyrstu ljóðabókar hennar. „Og þegar maður hefur lært nýtt tungumál verður til þörf til að tjá sig á þessu tungumáli.“ Ári síðar fór Arndís síðan til skriftardvalar í Visby á Gotlandi. „Þar urðu mörg ljóðanna í þessari bók til án þess að það hafi verið tilgangurinn,“ sagði Arndís ennfremur.

Flest ljóðanna í Innræti eru í fyrstu persónu og er ljóðmælandinn í þeim flestum kona að því er virðist á svipuðu reki og Arndís sjálf en þó líka mjög ólík henni. Hún er til að mynda dökkhærð, hún er fasteignasali og hún étur kött, svo dæmi séu tekin. Og þessi kona þarf að íhuga margt um tilveru sína sem henni finnst oft á tíðum öfugsnúin og gera kröfur sem sumar eru ósanngjarnar, jafnvel heimskulegar. 

Arndís segir að á ákveðnum tíma við samsetningu bókarinnar hafi henni virst eins og hér væru „raddir margra kvenna á ferð, heill kór,“ sem hafi verið henni ákveðinn léttir vegna þess að ljóðabækur séu öðruvísi en annar skáldskapur. „Þegar maður segir ég í ljóði er það merkingarþyngra en þegar maður segir ég í skáldsögu og mér fannst þetta óþægilegt því þarna eru á ferðinni ýmis viðhorf og reynsla sem ekki eru mín persónulega.“

Hugmyndin um hin fjölradda kór var hins vegar fljótt slegin út af borðinu því hér er í raun aðeins ein rödd á ferðinni, rödd konu sem skoðar heiminn og dregur sínar ályktanir af hversdagslegum atvikum, fyrirbærum og viðhorfum. Þetta er kona sem minnir stundum á konurnar í ljóðum Þórdísar Gísladóttur um leið og ljóð Arndísar eiga það til að vera jafnvel enn yfirgengilegri en ljóð Þórdísar.

Umönnun

Ég smeygi ólinni um hálsinn
og kippi harkalega í tauminn

Það er ekki valkvætt að viðra sig
segi ég byrst

Ég fer í sérverslun eftir fóðrinu
kaupi dýrar vörur
fullar af næringarefnum

Ég set kvikindið í bað

Ég gef því vítamín
raka á því lappirnar
læt það lesa heimsbókmenntirnar
og hugleiða

Á kvöldin
þegar ég hef háttað það á skikkanlegum tíma
gæti ég að rimlunum

Um nætur hvílumst við saman
skepnan og ég
innan í rammgerðu búrinu

Allmörg ljóð í Innræti fjalla um ferðalög og eru þau oft tengd ákveðinni angist, angist varðandi það að ferðin að heiman verði aldrei ferðin heim og svo er það kolefnissporið. En ferðalög eru líka til þess fallin að víkka sjóndeildarhringinn, veita fjarlægðarsýn á heimahagana, fólkið og framkvæmdirnar þar. Innræti er jafnvel einmitt dæmi um það síðastnefnda, þegar barnabókahöfundurinn Arndís Þórarinsdóttir dvaldi í Visby og varð að ljóðaskáldinu Arndísi Þórarinsdóttur sem yrkir um konu, heimilisskyldur, samfélagskröfur og fleira sem í fjarlægðinni fær á sig súrrealískan blæ.