Stofan heima hjá mér barmafull af fólki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Stofan heima hjá mér barmafull af fólki

15.04.2020 - 14:27
Íþróttadeild RÚV mun næstu vikur fá fólk til að rifja upp sínar helstu minningar sem tengjast íþróttum. Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrverandi forseti Alþingis, hefur alla tíð fylgst vel með íþróttum.

„Ég æfði sjálf handbolta með FH þegar ég var lítil stelpa. Ég var í markinu og við æfðum alltaf í íþróttahúsi Barnaskóla Hafnarfjarðar á Hörðuvöllum,“ segir Guðrún en bætir því við að hún hafi aldrei verið neitt sérstaklega góð í marki. „Ég var svo lítil að boltinn fór alltaf framhjá mér og hafnaði í netinu,“ segir Guðrún og hlær.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum og man vel eftir frjálsíþróttamótum á Melavellinum í Vesturbæ. Þar voru allskonar heimsfrægir menn að keppa. Ég man eftir að hafa horft á hetjur eins og Gunnar Huseby þarna og Clausen-bræður, þá Örn og Hauk. Þetta voru mikil stórmenni,“

Vorum rígmontin af Hjalta

„Annars hef ég alltaf fylgst mest með handbolta. Hjalti Einarsson heitinn var giftur systur minni og við í fjölskyldunni voru ægilega montin af honum. Hann var landsliðsmarkvörður í handbolta og keppti meðal annars á Ólympíuleikunum í München 1972 og var valinn Íþróttamaður ársins 1971. Við fylgdumst vel með öllu sem Hjalti gerði í fjölskyldunni og ég man sérstaklega að sonur minn, þá 14 ára, var ægilega stoltur af honum eins og við öll reyndar“ segir Guðrún.

Mynd með færslu
 Mynd: SÍ - sportpress.is
Hjalti Einarsson með verðlaun sín eftir að hafa verið kjörinn Íþróttamaður ársins 1971.

„En það er ekkert sem toppar Ólympíuleikanna í Peking 2008 þegar íslenska handboltalandsliðið vann til silfurverðlauna. Eins og alltaf þegar stórmót í íþróttum eru í gangi, sat ég límd yfir sjónvarpinu og missti ekki af leik hjá íslenska liðinu,“ segir Guðrún og bætir við.

„Eftir því sem leið á mótið varð stemningin meiri og meiri og ég varð svo himinlifandi þegar strákarnir komust alla leið í úrslitaleikinn. Á þessum tímapunkti í mótinu var stofan heima hjá mér barmafull af allskyns áhugafólki um handbolta. Þetta var afar eftirminnilegt,“ segir Guðrún sem hefur líka alltaf fylgst vel með danska landsliðinu.

„Ég hugsa líka alltaf hlýtt til Dana og það var sérstaklega sætt að sjá Guðmund Guðmundsson stýra danska liðinu til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Þeir fóru nú reyndar illa með hann eftir leikana en það er önnur saga.“