Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Næstum allir hafa náð fullum bata á Austurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ekkert kórónuveirusmit hefur greinst á Austurlandi í eina viku. Alls hafa átta manns greinst smitaðir í fjórðungnum síðan faraldurinn skall á, en Austurland er sá landsfjórðungur þar sem fæst smit hafa verið greind. Af þeim átta sem hafa greinst eru tveir enn í einangrun, en hinir sex hafa náð fullum bata.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi sem birt var í gær.

Þar segir ennfremur að sólarhringinn á undan hafi tveir farið í sóttkví. „Skýrist það af einstaklingum er komu erlendis frá. Í sóttkví eru samtals tuttugu og þrír,“ segir í tilkynningunni.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV