Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

McCartney segir að loka eigi „miðaldamörkuðum“ Kína

epa06364505 Iconic singer, songwriter and performer Paul McCartney performs at NIB Stadium in Perth, Australia, 02 December 2017. His 'One on One' tour is his first tour of Australia since 1993.  EPA-EFE/RICHARD WAINWRIGHT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT  EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA

McCartney segir að loka eigi „miðaldamörkuðum“ Kína

15.04.2020 - 09:44

Höfundar

Bítillinn Paul McCartney var í viðtali hjá útvarpsmanninum Howard Stern á dögunum og talið barst að COVID-19 sjúkdómnum og blautmörkuðum í Kína. Í viðtalinu lét McCartney þá skoðun sína í ljós að þessir markaðir væru afsprengi miðalda og bar hann þá saman við þrælahald fyrri alda.

McCartney segir í viðtalinu að ýmsir sjúkdómar sem hafa herjað á mannkyn á síðustu árum eigi uppuna sinn á blautmörkuðum í Kína og nefndi hann ýmsar ástæður fyrir því að eina vitið væri að kínversk stjórnvöld bönnuðu þá. 

Vísbendingar eru um að rekja megi uppruna kórónuveirufaraldursins til blautmarkaða í Kína en það er þó ekki sannað ennþá. Á mörkuðunum eru alls kyns dýraafurðir seldar og þeir draga nafn sitt af blautu gólfinu sem þarf reglulega að þrífa vegna blóðs og annars úrgangs.

Þeir McCartney og Stern virtust vera sammála um að loka ætti þessum mörkuðum af heilsufarslegum ástæðum sem og dýraverndunarsjónarmiðum. „Ég vona að þetta verði til þess að kínversk stjórnvöld hugsi með sér, jæja, við verðum að passa upp á hreinlætið hérna. Horfumst í augu við staðreyndir, það er dálítið miðaldalegt að borða leðurblökur,“ segir McCartney. Þegar að Stern hafði uppi efasemdir um að kínversk stjórnvöld myndu banna markaðina hélt McCartney áfram: „Þetta væri ekki svo slæmt ef þetta væri það eina sem þú gætir kennt þessum mörkuðun um. En það er eins og SARS, fuglaflensan og fleira sem hefur þessi áhrif á okkur sé þaðan, og til hvers? Til að þessar miðaldaaðferðir geti haldið áfram? Þeir verða að taka sig á. Ef þetta leiðir ekki til breytinga veit ég ekki hvað gæti gert það.“

Vissulega kemur það lítið á óvart að McCartney berjist fyrir því að blautmörkuðum verði lokað. Hann hefur verið grænmetisæta og ötull talsmaður fyrir réttindum dýra um langt skeið. Það er því ýmislegt sem á sér stað á þessum mörkuðum sem McCartney er ósáttur við. „Þegar þú sérð viðbjóðinn sem á sér stað þarna og afleiðingar þess, þá gætu þeir allt eins sprengt kjarnorkusprengju. Þetta hefur áhrif á allan heiminn,“ segir McCartney. Hann bætti við að mótrökin, að þessir markaðir væru gamlir og svona hefði þetta alltaf verið í Kína, héldu ekki vatni. „Þeir höfðu þræla um langt skeið. Þú verður að breyta hlutunum á einhverjum tímapunkti,“ bætir hann við. 

McCartney er sjálfskipaðri sóttkví á heimili sínu í Bretlandi ásamt fjölskyldu dóttur sinnar en eiginkona hans, Nancy Shevell, er í New York. Hann segist vera óttasleginn en minnir á að foreldrar hans fóru í gegnum seinni heimsstyrjöldina og í kjölfarið hafi almenningur staðið saman og gert það sem nauðsynlegt var til að komast í gegnum það tímabil. Hann segir slíkan hugsunarhátt vera nauðsynlegan í dag og segist þegar sjá merki um hann. En faraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á McCartney sem þurfti að fresta öllum fyrirhuguðum tónleikum sínum í sumar, þar á meðal tónleikum sínum á Glastonbury-hátíðinni. Segist hann fyrst og fremst finna til með þeim aðdáendum sem höfðu þegar keypt miða á tónleikana.

Tengdar fréttir

Tónlist

Handskrifaður texti Hey Jude sleginn á tugi milljóna

Tónlist

Paul McCartney á Glastonbury 2020