Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kom á óvart að fimm útgerðir falli frá milljarða kröfum

15.04.2020 - 20:33
Mynd með færslu
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Vinnslustöðinni. Mynd: RÚV
Það kom framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar á óvart að heyra að fimm sjávarútvegsfyrirtæki ætli að falla frá milljarða málsókn gegn ríkinu vegna makrílkvóta. Huginn ætlar að halda sinni kröfu til streitu.

Sjö sjávarútvegsfyrirtæki höfðu ákveðið að stefna íslenska ríkinu og krefjast rúmlega 10 milljarða króna í bætur vegna ágreinings um úthlutun aflaheimilda í makríl. Forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að eðlilegt væri að fyrirtækin dragi kröfur sínar til baka. 

Og það gerðu fimm af þessum sjö fyrirækjum nú undir kvöld: Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes. Fram kemur í sameiginlegri tilkynningu að fallið sé frá málsókninni til að sýna samstöðu vegna kórónuveirufaraldursins. 

Huginn og Vinnslustöðin, voru ekki með í því. Forsvarsmenn Vinnslustöðvarinnar fara yfir málið á morgun, en krafa fyrirtækisins er upp á tæpan milljarð. Tilkynningin frá hinum félögunum kom flatt upp á framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

„Já, satt að segja kom mér það á óvart. Ég vissi auðvitað að menn væru að ræða þetta en það kom á óvart að þeir skyldu gera þetta. Við ætlum að taka fund á morgun og fara yfir stöðuna. Þetta er mikilvægt mál,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

Páll Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hugins, sagði í samtali við fréttastofu í kvöld að fyrirtækið ætli að halda sinni kröfu til streitu. Hún hljóðar upp á rúmar 800 milljónir króna.

Leiðrétting: Í sjónvarpsútgáfu þessarar fréttar birtust myndir af merki og húsnæði Bergs Hugins sf., sem á ekki aðild að málinu. Beðist er velverðingar á mistökunum.