Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fara í hvert útkall með Covid-19 sér við hlið

Mynd: Facebook-síðan Lögga á vakt / Facebook-síðan Lögga á vakt
Það tók lögregluna nokkra daga að læra á Covid, en nú hafa störfin verið aðlöguð að farsóttinni. Þetta segir aðstoðaryfirlögregluþjónn í Kópavogi. Lögreglustjórinn á Akureyri missti á tímabili fimmtung starfsmanna í sóttkví. Það gengur á ýmsu, fólk sem á að vera í sóttkví gengur berserksgang í miðbænum og of mörg börn safnast saman á fótboltavöllum. Faraldurinn kann að hafa haft áhrif á glæpalandslagið en það er erfitt að átta sig á þeim áhrifum í miðju kófi. 

Dans í bláljósaleiftri og kjarabarátta

Á Facebook-síðunni Lögga á vakt er vakin athygli á störfum lögreglumanna, þar ægir öllu saman, myndum af lögreglufólki í hlífðargöllum og með grímur, myndböndum þar sem lögreglulið skora hvert á annað að dansa í bláljósaleiftri við lagið Blinding lights og færslum þar sem fólk fær útrás fyrir gremju sína í garð ríkisins vegna kjarasamningsleysis.

Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður sem leitar að týndu börnunum svokölluðu, er annar ritstjóra síðunnar. „Við erum ekki með verkfallsrétt, við getum engu beitt þannig að okkur finnst ríkið ekki sýna sanngirni. Við erum búin að vera samningslaus í eitt ár en við erum búin að vera með atriði ókláruð frá síðasta samningi 2015 sem gengur illa að fá þá til að nálgast.“ 

Mynd með færslu
Guðmundur Fylkisson lögreglumaður Mynd:  - RÚV
Guðmundur Fylkisson leitar að ungmennum sem hafa látið sig hverfa, mörg þeirra eru í neyslu.

Guðmundur segir álagið á stéttina öðruvísi á farsóttartímum, meira andlegt. Það geti verið óþægilegt að þurfa að fara í alklæðnaði á vettvang þar sem grunur er um smit og þurfa jafnvel, þannig útbúinn, að kljást við fólk sem misst hefur stjórn á sér. 

Ekki til starfsfólk á lager

Það er búið að skipta upp öllum vöktum og hólfa niður svið og deildir. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að vegna þess sé ekki hægt að kalla fólk út í aukavinnu milli vakta eða fá lánaðan mannskap af öðrum stöðvum. Það sé ekki til starfsfólk á lager. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Sveinn Kristján Rúnarsson.

397 dagar í sóttkví

Nokkur dæmi eru um að lögregluembætti hafi misst starfsfólk í sóttkví eða svokallaða úrvinnslusóttkví á meðan fengið er úr því skorið hvort einhver sem þurfti að hafa afskipti af sé sýktur. „Við höfum haft afskipti af aðila sem á að vera í sóttkví og það ekki komið í ljós fyrr en eftir á, eða þá að aðilinn sýnir Covid-einkenni, þá hefur sá aðili farið í test og á meðan fara lögreglumenn í biðkví á meðan það er að koma niðurstaða úr testinu, hvort það er neikvætt eða jákvætt. Lögreglubíllinn er hreinsaður, fötin þeirra fara í þvott, það er viss prósess, svo þegar það er búið fara þeir heim til sín í biðkví,“ segir Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöðinni við Dalveg í Kópavogi . Fyrir þá sem ekki geta verið í úrvinnslusóttkví heima hjá sér er aðstaða í Skógarhlíð, þar hafa einhverjir þurft að gista.

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook-síðan Lögga á vakt
Í úrvinnslusóttkví. Mynd: Facebook-hópurinn Lögga á vakt.

Frá því faraldurinn braust út hafa 85 starfsmenn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þurft að fara í sóttkví eða einangrun til lengri eða skemmri tíma. Sex hafa smitast og af þeim eru tveir enn í einangrun. Þá er einn starfsmaður í sóttkví vegna barns. Af þeim sem þurftu í sóttkví, þurftu 39 einungis að vera tímabundið frá, allt frá einum degi upp í sex. Samtals hafa starfsmenn embættisins verið í sóttkví í 397 daga og einangrun í 98. 

Taka ökumenn upp á bodycam

Mynd með færslu
 Mynd: þóra jónasdóttir
Þóra Jónasdóttir.

Í síðustu viku handtók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mann í annarlegu ástandi, sá átti að vera í sóttkví en gekk þess í stað um götur miðborgarinnar og sparkaði í bíla. Hann var kærður fyrir brot á sóttvarnalögum. Þóra hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir mikið hugað að smitvörnum í vettvangsferðum. Lögreglumenn fara í göllum og með grímur á vettvang ef minnsti grunur er um smit. „Í rauninni höfum við bara stigið það skref að breyta svolítið aðkomu okkar að hverju útkalli fyrir sig með Covid-19 við hlið okkar, það hefur bara gengið ótrúlega vel, að vísu tók smá tíma að koma sér í þennan gír, að nota maska, hanska og fleira en mér finnst það hafa gengið bara mjög vel. Til að mynda í umferðinni, þegar við erum að stoppa ökumann fyrir umferðarlagabrot þá ræðum við við hann þar sem hann situr undir stýri í sínum bíl og tökum það bara upp á bodycam.“ 

Ef ökumaður er undir áhrifum áfengis eða fíkniefna er enn hafður sá háttur á að taka hann upp í lögreglubílinn og fara með hann á stöðina. „Fyrir utan það að við reynum að setja maska og hanska á ökumanninn og okkur sjálf þá líka.“

Áfram er tekið á móti kærum og öll starfsemi óskert bara með breyttu sniði. Þóra segir það erfiðasta snúa að félagslegum tengslum, því að geta ekki átt í samskiptum við kollega þvert á svið eða deildir, þar sem það er búið að skipta starfseminni upp í fjölda sóttvarnarhólfa. 

Tvístra barnahópum á fótboltavöllum

Mynd með færslu
 Mynd:
Halla Bergþóra Björnsdóttir.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, missti í upphafi faraldursins tæplega fimmtung lögreglumanna í sóttkví eða úrvinnslusóttkví, þar af tvo sem hittu ástralska manninn sem lést af völdum Covid-19 á Húsavík. Með aukinni meðvitund um sóttvarnir og hreinsun á búnaði hefur að sögn Höllu dregið úr þessu. Hún segir alla þjónustu við almenning óskerta og öllum útköllum sinnt, verklag og verkefni hafi þó breyst. Alltaf grímur og hanskar til taks í bílunum. Eitt af nýju verkefnunum sem lögreglan tekst á við er eftirlit með samkomutakmörkunum. Halla segir til dæmis hafa verið farnar eftirlitsferðir í verslanir til að kanna hvort settar hafi verið upp merkingar. Þá hafi lögregla þurft að tvístra börnum að leik á fótboltavöllum. Það sé skrítið, enda áður talið gleðiefni að sjá börn úti að leika. Lögreglan hefur eitthvað þurft að skipta sér af fólki sem er í neyslu og á erfitt með að vera í sóttkví. 

Meira að segja tækifæri til frumkvæðiseftirlits

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, hefur ekki misst neinn í sóttkví, bara eitt skipti þar sem tveir lögreglumenn þurftu í nokkurra klukkustunda úrvinnslusóttkví á meðan sýni var greint. Sjálfur hefur hann ekki sinnt almennum löggæslustörfum síðustu vikur, hann og tveir aðrir lögreglumenn á svæðinu sinna aðgerðarstjórn almannavarna, einkum í tengslum við hópsmitið á Hvammstanga. Lögregla þurfti að vinna með vettvangsstjórn og tryggja að öll fyrirtæki væru með áætlanir um hvernig skyldi tryggja órofinn rekstur svo samfélagið héldist gangandi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Stefán Vagn.

Stefán segir að lögreglan hafi ekki þurft að sekta fyrir brot á sóttvarnalögum eða leysa upp samkomur. Fólk hafi hlýtt fyrirmælum, aðeins borist örfáar tilkynningar en þær hafi ekki verið á rökum reistar. 
­Þá segir hann það ekki hafa komið að sök þó þeim fækkaði sem sinna almennri löggæslu, verkefni lögreglu á Norðurlandi vestra séu að stórum hluta tengd umferð og með minnkandi umferð fækki slysum og umferðarlagabrotum, það hafi meira að segja gefist tími til að sinna frumkvæðislöggæslu í umferðarmálum. 

Áhyggjur af heimilisofbeldi

Þóra aðstoðaryfirlögregluþjónn í Kópavogi segir að glæpamynstrið virðist hafa breyst, til dæmis sé meira um netbrot ýmis konar. Þannig hafa til dæmis borist tilkynningar frá fólki sem hefur fengið hótunarpósta, sendandi segist hafa yfirtekið tölvuna og náð myndefni af brotaþola þar sem hann sé að skoða klámsíður, heimtar svo háar rafmyntargreiðslur, ella dreifi hann myndefninu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir þessar hótanir innantómar. 

Lögreglan hefur einnig áhyggjur af því að heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum kunni að aukast þó enn sé ekki hægt að merkja aukningu. „Ég held það sé eitthvað sem við þurfum að skoða eftir einhvern tíma með aukninguna en við höfum áhyggjur af því vegna reynslu annarra þjóða.“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinun gaf út myndband til að vekja athygli á þessu. Þar sem þolendur og þeir sem hafa grun um að ofbeldi viðgangist eru hvattir til að leita til lögreglu.

Þóra hvetur þolendur og gerendur til að leita sér aðstoðar. Hún nefnir í því samhengi Kvennaathvarfið og samtökin Heimilisfrið sem veita þeim sem beita ofbeldi meðferð. 

Halla Bergþóra, lögreglustjóri á Akureyri, segist finna fyrir því að meiri þungi hafi færst í heilmilisofbeldismál. Embættið sé þó ekki með tölur til að staðfesta það. Hún segir að það verði fróðlegt að gera þetta ár upp, bera brotatölur þess saman við tölur fyrri ára. 

Áhrif á glæpalandslagið verða ljós seinna

Bráðabirgðatölur lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu yfir afbrot í marsmánuði sýna að tilkynningum um þjófnað og innbrot hefur fækkað töluvert samanborið við síðasta ár og febrúarmánuð. Umferðarlagabrotum hefur fækkað mikið og mun færri eru gripnir undir áhrifum. Tilkynningu um heimilisofbeldi fjölgaði frá í febrúar, og voru um fimm prósentum fleiri en þau voru að meðaltali í marsmánuði síðustu þrjú ár. 

Rannveig Þórisdóttir, félagsfræðingur og sviðsstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir erfitt að tengja sveiflur í afbrotatíðni beint við faraldurinn. Auðveldara verði að átta sig á áhrifum hans þegar fram liða stundir, ekki í miðju kófi. Þá skili sum gögn sér eftir á. Hún segir töluverða fækkun á innbrotum, þá hafi netglæpum fjölgað eitthvað en tilkynningar geti líka verið að skila sér seinna. Heimilisofbeldismálum hafi verið að fjölga frá því í haust og ekki ljóst hvort eða að hve miklu leyti megi tengja aukninguna nú við Covid-19, þá megi vera að mál skili sér ekki strax.

Ekki ástæða til að hlífa lögreglu við tilkynningum

Rannveig segir að lögreglan hafi orðið vör við það að fólk haldi að álagið sé mikið og vilji því síður tilkynna brot, það sé hins vegar ekki raunin. Umferðarlagabrot eru færri, enda færri á ferli en hún segir líka hafa dregið tímabundið úr frumkvæðisathugunum lögreglu. Það kæmi henni á óvart ef áhrif farsóttarinnar á fíkniefnaneyslu- og brot væru mikil. Það hefur dregið úr samgöngum milli landa og þar með tækifærum til smygls en það er einkennandi fyrir markaðinn hér hversu mikið er um misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Þá séu fíkniefni á borð við amfetamín og kannabis framleidd hér. 

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook-síðan Lögga á vakt
Á vaktinni. Mynd: Facebook-síðan Lögga á vakt.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV