
Áhyggjur af köldu vori og kali í túnum
Nú er sá árstími þar sem bændur fara jafnan að dreifa skít á tún til að flýta fyrir sprettu. Bæði reyna menn að fara á túnin áður en klaki fer úr jörðu, en einnig eftir að tún eru orðin þurr. Og þar sem aðstæður eru góðar eru margir þegar byrjaðir.
Víða enn snjór og svell á túnum
En það hefur verið afar snjóþungt víða, sérstaklega á Norðurlandi, og þar getur liðið talsverður tími þangað til bændur hefja þessi vorverk. „Þeir verða að bíða eftir að snjóinn taki upp og sumstaðar eru svell líka. Og í rauninni á ekkert að vera að dreifa skit á snjó eða svell á túnum,“ segir Eiríkur Loftsson, ráðunautur hjá Ráðgjafamiðstöð landsbúnaðarins.
Getur brugðið til beggja vona með heyfeng
Og hann segir að tíðarfarið næstu vikur ráði því alfarið hvernig tekst til með heyfeng, þó að gott sumar geti bætt upp kalt vor. „Veðurfar í Íslandi er nú svo stórbrotið á köflum og það getur komið gott sumar á eftir seinu vori sem gerir heyfeng kannski góðan. En að sama skapi þá getur þetta líka brugðið til beggja vona með heyfeng þegar vorar seint.“
Viðbúið að sumstaðar verði talsvert kal
En Eiríkur segir ekki síður áhyggjur af kali og tjóni á túnum þess vegna. Víða á Norður- og Austurlandi hafi svell legið á túnum frá því í desember. Það verði kal á einhverjum svæðum, þó ekki sé búið að meta hversu mikið eða útbreitt það verði. „Þar sem eru svell á túnum núna og þau eru búin að vera það lengi, er viðbúið að það sé talsvert kal þar sem það á við.“