Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

500 til 1000 milljónir vantar í viðhald vega

15.04.2020 - 18:42
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Víða eru holur í vegum á Suðurlandi eftir veturinn. Svæðisstjóri Vegagerðarinnar segir að þó að bætt hafi verið í fjárveitingu dugi það ekki til. Hálfan til einn milljarð króna þurfi til viðbótar.

Veturinn hefur ekki farið blíðum höndum um vegi á Suðurlandi. Vegurinn milli Hveragerðis og Selfoss er holóttur og það finnst vel þegar bíll hossast eftir honum. Þá er vegurinn fyrir ofan Litlu-Kaffistofuna stagbættur en samt illa farinn.

„Það er nú þessi tíð þegar það er að hlýna á vorin, þá þiðnar yfirborð veganna og þá skemmast slitlögin oft,“ segir Svanur Bjarnason, svæðisstjóri suðursvæðis Vegagerðarinnar. „Slitlögin eru víða orðin svo mjög gömul hérna og hefur vantað upp á viðhald því miður.“

Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa í nógu að snúast við að bæta úr. „Okkar menn hérna í stöðinni á Selfossi eru alla daga og reyndar ekki bara hér á Selfossi, heldur á Vík, Hafnarfirði og væntanlega um allt land. Þeir eru alla daga, þetta er eina verkefnið eiginlega að henda í holur þegar hægt er, þegar það viðrar til þess. Það eru bara nokkrar tilkyninga á dag um holur sem þarf að laga.“ 

Og það sést glögglega á staflanum af tómum fötum undan holufyllingarefni í húsi Vegagerðarinnar á Selfossi. Í vor verða svo lagaðar klæðningar sem brotnað hefur upp úr. Ríkisstjórnin ákvað nýverið að verja aukalega einum milljarði króna í viðhald vega um allt land.

„Það kemur sér vel en það mætti vera mikið meira því miður,“ segir Svanur. „Það var mikið skorið niður fyrir tíu árum síðan eftir hrunið og við höfum ekki alveg náð í skottið á okkur eftir það.“

Hvað myndi þurfa mikið meira eins og hérna á Suðurlandi? „Við gætum alveg hæglega notað 500 til þúsund milljónir til viðbótar í malbikun og yfirlagningu vega,“ svarar Svanur.