Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Við sjáum ekki fyrir endann á ferðatakmörkunum“

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Íslendingar munu búa við einhverjar ferðatakmarkanir til og frá landinu fram eftir þessu ári. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Hún segir að ekki sé enn hægt að meta hver áhrifin af kórónuveirufaraldrinum verði á efnahagslífið hér á landi. Mikilvægt sé að aflétta ekki samkomuhöftum of hratt.

Skólastarf í leik- og grunnskólum verður með eðlilegum hætti frá 4. maí og heimilt verður að opna framhalds- og háskóla. Þetta kom fram á blaðamannafundi forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra í hádeginu í dag. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar en leyfilegt verður að fara í klippingu. Miðað verður við að hámarksfjöldi fólks í einu rými verði 50 manns, í stað 20 nú. Áfram á fjarlægð á milli fólks að vera tveir metrar eða meira. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist hafa skilning á því að einhverjir hafi vonast til þess að hægt væri að aflétta takmörkunum í stærri skrefum.

„Ég veit að við erum öll að vonast eftir því að geta farið hratt niður úr þessu verkefni sem við höfum verið að standa í,“ sagði Katrín í samtali við Sigríði Dögg Auðunsdóttur fréttamann að fundinum loknum. „En eins og ég sagði hér áðan, þá verðum við að gæta okkur á því að fara ekki of hratt út úr takmörkunum. Við þurfum að fylgjast með því hverju þessi aflétting skilar og hvort hún hefur einhver áhrif á útbreiðslu smita. Þannig að þess vegna verðum við að fara okkur hægt. Áhrifin á efnahagslífið verða auðvitað umtalsverð og það verður að segjast eins og er að við sjáum þau ekki enn fyllilega fyrir. Við munum væntanlega kynna næstu aðgerðir okkar vegna efnahagslegra og félagslegra áhrifa einhvern tímann í lok þessarar viku. Ég held líka að það sé alveg öruggt að það verði ekki síðustu aðgerðirnar því allt er þetta unnið í þessari miklu óvissu um hver afdrif veirunnar verða í okkar samfélagi.“

Margt kemur til greina

Nú sagði dómsmálaráðherra frá því á fundinum hér áðan að ferðatakmörkunum sem Evrópusambandið leggur til verði haldið áfram til 15. maí. Hvaða þýðingu hefur það að þínu mati?

„Þetta kemur ekki á óvart. Á fundi mínum með Ursulu von der Leyen fyrr í þessum mánuði kom fram að líklega yrði lagt til að slíkar landamæralokanir yrðu framlengdar. Og það hefur nú gerst. En við munum sjá einhverjar ferðatakmarkanir fram eftir árinu. Og þar kemur margt til greina eins og kom fram í máli sóttvarnarlæknis á þessum fundi. Við erum í miðju kafi, það er verið að þróa mótefnapróf, það er verið að beita sóttkví við þá sem ferðast á milli landa. Þannig að það er alveg ljóst að við sjáum ekki fyrir endann á ferðatakmörkunum,“ segir Katrín.

Ferðamenn mögulega bannaðir

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í Morgunþættinum í morgun að koma verði í veg fyrir að veiran blossi upp í samfélaginu að nýju, eftir að tekist hefur að ná tökum á útbreiðslu hennar.

„Ef við erum nokkurn veginn búin að halda henni niðri hér innanlands, þá er eina leiðin fyrir veiruna að ná sér á strik að hún komi utan frá, frá útlöndum með ferðamönnum eða einhverju öðru. Við þurfum að hugsa það og það eru áætlanir í gangi, og vinna við það, að reyna að meta hvað við getum gert, hvaða hömlur við getum til dæmis lagt á ferðamenn, til þess að koma í veg fyrir að þeir komi inn með veiruna,“ sagði Þórólfur. Ýmislegt komi til greina hvað þetta varðar.

„Það getur verið allt frá því að banna ferðamenn, eins og var kallað eftir hérna í byrjun, það var kallað eftir því að hingað ættu engir að koma inn, það ætti að loka ákveðnar þjóðir úti og svo framvegis. Við þurfum líka að takmarka ferðir Íslendinga. Það væri hægt að gera það á ýmsa vegu. Á meðan við höfum ekki góða bólusetningu gætum við til dæmis reynt að búa til einhvers konar vottorð um að menn hafi annað hvort fengið veiruna, og að það sé staðfest, eða þá að menn séu með mótefni gegn veirunni, og þá geti þeir ferðast. Það er eitthvað á þessum nótum sem við þurfum að hugsa hvort sé mögulegt, og við erum að kanna allar leiðir í því, hvort þetta sé hægt,“ sagði Þórólfur.