Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útlit fyrir að ekki verði af Gleðigöngunni í ár

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavik Pride
Útlit er fyrir að ekki verði af Gleðigöngu Hinsegin daga í ár vegna fjöldasamkomubanns. Formaður Hinsegin daga segir að vonast sé til að áfram verði náð til jafnmargra og áður, en yfir netið í þetta skiptið.

Sóttvarnalæknir leggur í minnisblaði til heilbrigðisráðherra til að fjöldasamkomur hér á landi verði takmarkaðar við að hámarki tvö þúsund manns, að minnsta kosti út ágúst. Heilbrigðisráðherra hefur ekki sett formlegar reglur um slíkt en hún hefur hingað til farið eftir tillögum sóttvarnalæknis. 

 „Miðað við nýjustu upplýsingar frá heilbrigðisráðherra þá lítur það þannig út að það verði ekki af gleðigöngunni í ár, sem átti að fara fram þann 8. ágúst. Þannig að nei, því miður,“ segir VIlhjálmur Ingi Vilhjálmsson, formaður Hinsegin daga. „Þó það séu mikil vonbrigði þá vonumst við til þess að við getum komið sem flestum dagskrárliðum á framfæri. Við munum finna leiðir til að koma okkar baráttumálum, fróðleik og skemmtunum til almennings. Það er verkefni næstu fjóra mánuðina.“

Hinsegin dagar lagi sig að breyttum aðstæðum eins og allir í þjóðfélaginu hafi þurft að gera. „Við þurfum að hlýða Víði og fara eftir þeim ráðleggingum sem koma frá sóttvarnalækni og heilbrigðisráðherra. VIð munum gera okkar besta. Það er forgangsatriði núna að tryggja lýðheilsu þjóðarinnar þannig að við bara tökum þátt í því og höldum bara gleðinni áfram og finnum lausnir á þessu.“

Gleðigangan hefur verið fastur liður í skemmtanalífi miðborgar Reykjavíkur ár hvert undanfarin 20 ár. „Gleðigangan er oftast í kringum 80 þúsund manns þannig að við rétt förum þarna yfir þessi mörk sem um var rætt,“ segir hann kíminn. „En það á við um Gleðigönguna. Okkur langar til að ná til jafn margra í ár eins og við höfum áður gert. En við verðum bara að fara yfir úr raunheimum og yfir í netheimana, eins og mikið af tónleikum og aðrar skemmtanir hafa gert.“