Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Neyðarsími Bjarkarhlíðar nýttist vel um páskana

14.04.2020 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, opnaði sérstakan neyðarsíma yfir páskana til að bregðast við aukinni hættu á heimilisofbeldi í samkomubanni. Nokkuð var um símtöl, bæði frá þolendum ofbeldis og aðstandendum þeirra.

Starfsemi Bjarkarhlíðar hefur verið með örlítið breyttu sniði eftir að samkomubannið hófst. Aðeins er einn starfsmaður í húsi en önnur viðtöl eru tekin gegnum síma. Alla jafna hefði Bjarkarhlíð haft lokað yfir páskana en ákveðið var að opna sérstakan neyðarsíma til að bregðast við ástandinu í samfélaginu vegna samkomubannsins.

„Við gátum nýtt styrk sem við fengum fá félagsmálaráðuneytinu til að opna þennan síma. Það kom sér mjög vel. Þetta var mjög góð viðbót við þá þjónustu sem er í boði. Fólk var að nýta sér þetta og hringja í símann. Málin voru  mörg ný en líka gömul,“ segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar. 

Ekki hefur verið tekið ákvörðun um hvort neyðarsíminn verði áfram virkur en Ragna Björg segir ljóst að það hafi verið þörf á þessari þjónustu yfir hátíðarnar. Þá hafi aukin umræða um heimilisofbeldi undanfarna daga komið af stað ákveðinni vitundarvakningu í samfélaginu.

„Þegar það er vitundarvakning eða mikil umræða finnum við það. Það voru þolendur ofbeldis sem hringdu um páskana, en við fengum líka símtöl fá aðstandendum. Þeir voru þá áhyggjufullir vegna gruns um ofbeldi og vildu fá leiðsögn um hvað sé best að gera, hvernig megi hjálpa.“