Hótaði barnsmóður sinni og réðst á fyrrverandi kærustu

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tólf mánaða fangelsi fyrir grófa líkamsárás gegn fyrrverandi kærustu sinni og fyrir að hóta barnsmóður sinni með skilaboðum á snapchat. Dómurinn var kveðin upp um miðjan mars og var ekki birtur fyrr en nú. Manninum var gert að greiða fyrrverandi kærustu sinni 1,7 milljónir og barnsmóður sinni 200 þúsund krónur.

Maðurinn réðst á fyrrverandi kærustu sína í miðborg Reykjavíkur um miðjan október.

Handtekinn aftur og færður í varðhald

Hann var handtekinn á vettvangi og úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald.  Réttarmeinafræðingur taldi árásina hafa verið mjög grófa og harkalega og að stúlkan hefði getað verið í lífshættu á meðan henni stóð.  

Manninum var sleppt eftir að héraðsdómur hafnaði beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um áframhaldandi gæsluvarðhald. Sá úrskurður var kærður til Landsréttar sem sneri ákvörðun héraðsdóms við og hefur maðurinn því setið í gæsluvarðhaldi síðan í lok október. Sú vist dregst frá refsingunni.  

Hótaði barnsmóður sinni á snapchat

Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir að ráðast á sömu stúlku í september og fyrir að hafa sent annarri stúlku, barnsmóður sinni,  hótanir með samskiptaforritinu snapchat. Hann var hins vegar sýknaður af því að hafa veist að barnsmóður sinni í Heiðmörk í júlí.

Héraðsdómur segir að brot mannsins hafi beinst gegn heilsu og velferð tveggja ungra stúlkna og þau hafi haft afleiðingar fyrir líðan þeirra og velferð.  Hann hafi notfært sér það traust sem stúlkurnar báru til hans í ljósi sambands þeirra við hann. Árásin gegn kærustunni fyrrverandi hafi verið einstaklega gróf og borið vott um algjört skeytingarleysi gagnvart lífi hennar. 

Dómurinn horfði til ungs aldurs mannsins en taldi að í ljósi alvarleika árásarinnar sem maðurinn gerðist sekur um í október væri ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna. Var hann því dæmdur í tólf mánaða fangelsi. 

 

Visir.is greindi fyrst frá dómnum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi